Innlent

Telur fornleifaskýrslu ærumeiðandi

Frá Hólum í Hjaltadal
Frá Hólum í Hjaltadal

Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur og aðjúkt við Háskólann á Hólum, telur að í stjórnsýsluúttekt mennta- og menningarmálaráðuneytisins á stöðu og þróun fornleifarannsókna á Íslandi sé að finna rangfærslur um störf hennar sem eru til þess fallnar að valda henni álitshnekki og fjártjóni.

Hefur Ragnheiður þess vegna leitað til lögmannsstofunnar Rökstóla til að gæta hagsmuna hennar vegna vinnslu, birtingar og umfjöllunar um skýrsluna. Lögmaður hennar, Jónas Fr. Jónsson, hefur skrifað ráðuneytinu bréf þessa efnis. Þar segir: „Sérstaklega skal tekið fram að aldrei var leitað til umbjóðanda míns varðandi upplýsingar eða sjónarmið, hvorki á meðan unnið var að skýrslunni eða áður en hún var birt,“ og spurt á hvaða lagagrunni skýrslan sé unnin og birt; óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til hæfis skýrsluhöfundar til að vinna hlutlæga umfjöllun um efnið og hvað ráðuneytið hyggst gera við skýrsluna.

Þá er óskað skýringa á því af hverju skýrslan hefur verið fjarlægð af vef ráðuneytisins. Það var fornleifafræðingurinn Brynja Björk Birgisdóttir sem vann skýrsluna sem var til umfjöllunar í Kastljósi í gærkvöldi og fréttum RÚV. Þar kom fram í stuttu máli að engum skýrslum hefur verið skilað um fjölda ríkisstyrktra verkefna og eftirliti með þeim sé ábótavant. Í skýrslunni eru rakin nokkur fornleifaverkefni sem fjármögnuð eru af opinberum aðilum, þar á meðal að Hólum í Hjaltadal sem Ragnheiður hefur veg og vanda af. Þar segir að Hólaverkefnið sé dæmi um skort á faglegu mati og gagnrýni við styrk- og leyfisveitingar.

Eins segir að 150.000 munir sem fundist hafa við fornleifauppgröft hér á landi hafi ekki verið skilað til varðveislu til Þjóðminjasafnsins. Það vekur hins vegar athygli að ráðuneytið fjarlægði skýrsluna fljótlega af vef sínum, auk þess sem eftirfarandi texti var birtur þegar hún var gerð opinber 22. maí. „Skýrsla þessi er unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti af Brynju Björk Birgisdóttur og endurspeglar ekki í öllum tilvikum álit og niðurstöður ráðuneytisins. Ráðuneytið ráðgerir að taka niðurstöður skýrslunnar til athugunar í samvinnu við Minjastofnun Íslands.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×