Innlent

Lögmaður útskrifast sem leiðsögumaður

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Lokaferð útskriftarhópsins var fimm daga gönguferð um borgfirsku alpana. Hér sést Eyrarfjall til hægri og ofan í Stóra-Langadal og Álftafjörð. Hópurinn var nýkominn niður úr hríðarkófi þegar myndin var tekin.
Mynd/Jón Gauti Jónsson
Lokaferð útskriftarhópsins var fimm daga gönguferð um borgfirsku alpana. Hér sést Eyrarfjall til hægri og ofan í Stóra-Langadal og Álftafjörð. Hópurinn var nýkominn niður úr hríðarkófi þegar myndin var tekin. Mynd/Jón Gauti Jónsson

„Ég er nú ekki að skipta um starfsgrein, menn geta verið alveg rólegir,“ segir Helgi Jóhannesson, landsþekktur hæstaréttarlögmaður og nú nýútskrifaður gönguleiðsögumaður.

Helgi var í 28 manna hópi karla og kvenna sem í síðustu viku brautskráðust sem gönguleiðsögumenn frá Leiðsöguskóla Menntaskólans í Kópavogi. „Ég fékk fyrir nokkrum árum dellu fyrir að ganga á fjöll,“ útskýrir Helgi áhugann á Leiðsöguskólanum. Námsefnið sé sérstaklega áhugavert og geti bætt menn sem ferðamenn.

„Eitt það besta sem maður hefur gert er að drífa sig í þetta. Það er afar þroskandi fyrir karla á mínum aldri að fara í skóla og læra eitthvað allt annað,“ segir Helgi sem verður fimmtugur í haust.

„Þetta er gríðarmikill almennur fróðleikur sem maður var ekki nógu góður í og síðan er þetta mjög praktískt líka með alls kyns verklegum úrlausnum í vetrarfjallamennsku og ferðamennsku yfirhöfuð.“

Að sögn Helga var nokkuð krefjandi að taka námið meðfram fullri vinnu. „Það var auðvitað ákveðinn veggur; að vera alltaf mættur í skólann klukkan hálffimm eftir langan vinnudag og vera til hálftíu,“ segir Helgi sem kveðst hafa verið með hundrað prósent mætingu – eða þar um bil.

„Það var hverrar mínútu virði. Þetta er kannski það nám þar sem ég hef haft mestan áhuga á námsefninu sjálfu.“

Helgi segir að í hópnum hafi verið fólk af öllum stigum mannlífsins og á öllum aldri. Í lokaferðinni nú í maí hafi mannskapurinn borið viðlegubúnað og vistir í fimm daga um borgfirsku alpana, frá Hreðavatni norður á Snæfellsnes.

„Ferðin var farin undir leiðsögn Jóns Gauta Jónssonar sem er einn fremsti fjallamaður Íslands og algjör snillingur,“ segir Helgi sem kveður hópinn hafa á vegferð sinni stöðugt bætt á sig kunnáttu í öllum tegundum af veðri.

„Það var frost eina nóttina, síðan rigning og svo æðislegt sumarveður inn á milli.“ Helgi segir vel geta farið svo að hann taki að sér gönguleiðsögn þótt lögmannsstörfin verði áfram í öndvegi.

„Maður getur kannski tekið einn og einn túr þegar maður er hvort eð er að ganga sjálfur eða ef það eru einhverjir skemmtilegir sem vilja fá mann með,“ segir nýbakaði leiðsögumaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×