Innlent

Varúðar ekki gætt á vatnsverndarsvæðinu

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Gat komið á tankinn og starfsmenn reyna að koma í veg fyrir lekann. Alls láku 600 lítrar úr tankinum.
mynd/OR
Gat komið á tankinn og starfsmenn reyna að koma í veg fyrir lekann. Alls láku 600 lítrar úr tankinum. mynd/OR

Ekki var staðið rétt að uppsetningu olíugeymis við Þríhnúkagíga í Bláfjöllum, samkvæmt úttekt Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Umhverfisráðherra hefur, að beiðni OR, boðað hagsmunaðila á fund um málið, sem fram fer á miðvikudag í næstu viku. Í erindi OR til ráðherra kemur fram að í leyfi Umhverfisstofnunar fyrir uppsetningu aðstöðunnar á Þríhnúkagíg, sem gefið var út í desember í fyrra, sé ekki nefnt að olíutankur verði settur upp við gíginn.

Þá hafi ekki verið leitað umsagnar hagsmunaaðila vatnsverndar við veitingu leyfisins. Olíutankur, sem verið var að flytja á svæðið, féll úr tveggja til þriggja metra hæð og um 600 lítrar af olíu flæddu úr honum.

Svæðið er á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR, segir að skoðun fyrirtækisins hafi leitt til þess að rétt væri að fá utanaðkomandi aðila til að skoða allt ferlið. Þess vegna hafi verið leitað til umhverfis- og auðlindaráðherra.

„Það er alveg ljóst að þegar svona atburður verður er mikilvægt að draga einhvern lærdóm af honum.“ Í erindi OR segir að olía hafi verið flutt eftirlitslaust með vörubíl upp í Bláfjöll og eldsneyti hafi verið dælt á þyrlu, inni á vatnsverndarsvæðinu, án sjáanlegra lekavarna. OR gagnrýnir einnig framgöngu eigin starfsmanna, en fluttir voru 4.000 lítrar af olíu á svæðið umfram þörf.

„OR leyfði bílnum að fara um þrátt fyrir frávik frá öryggisreglum,“ segir í erindinu. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir gríðarlega hagsmuni undir í málinu, enda snerti það vatnsverndarsvæði þéttbýlasta svæði landsins. „Það er hafið yfir allan vafa að ráðuneytið og ráðherra taka svona erindi alvarlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×