Innlent

Mok af kolmunna í vertíðarlok

Svavar Hávarðsson skrifar
Börkur NK fer á síld og makríl í júní.
Börkur NK fer á síld og makríl í júní. Mynd/Kristín Hávarðsdóttir

Börkur NK, skip Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, er nýkominn með fullfermi af kolmunna í heimahöfn, og markaði það lok vertíðarinnar eystra.

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Berki, segir í frétt á heimasíðu fyrirtækisins að framan af þessari síðustu veiðiferð hafi veður verið óhagstætt en brast á mokveiði þegar veður batnaði.

Skipið var fyllt í fáum holum en Börkur lestar 1.800 tonn. Veiðisvæðið var 40-50 mílur suðsuðvestur af Akrabergi, syðsta odda Færeyja.

Sturla sagði að engin ástæða væri til annars en að vera ánægður með vertíðina. Oft hefði veiði verið góð en brælur hefðu þó verið býsna þrálátar á miðunum suður af Færeyjum.

Að loknum kolmunnaveiðunum munu Síldarvinnsluskipin, Börkur og Beitir, gera hlé á veiðum þar til síldar- og makrílvertíð hefst í júnímánuði. Mun hléið verða notað til ýmissa viðhaldsverkefna og mun Beitir fara til Akureyrar í slipp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×