Innlent

Ómetanlegur stuðningur við börn alkóhólista

Anna Flosadóttir fékk afhentan fyrsta lykilinn frá Guðrúnu Rögnu Garðarsdóttur, framkvæmdastjóra Atlantsolíu.
Anna Flosadóttir fékk afhentan fyrsta lykilinn frá Guðrúnu Rögnu Garðarsdóttur, framkvæmdastjóra Atlantsolíu. Fréttablaðið/Stefán

SÁÁ hefur undirritað samning við Atlantsolíu með það að markmiði að styðja við Barnahjálp SÁÁ sem stofnuð var í síðustu viku.

Samningurinn felur í sér að tvær krónur af hverjum lítra sem dælt er af bensíni með sérstökum SÁÁ-lykli Atlantsolíu renni til Barnahjálpar SÁÁ. Auk þess fylgja ýmis fríðindi og afsláttarkjör.

Af þessu tilefni afhenti Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, Önnu Flosadóttur, kennara í mynd- og leiklist við Hlíðaskóla í Reykjavík, fyrsta SÁÁ-lykilinn. Anna hefur unnið með börnum alla sína ævi og þykir málefnið brýnt.

„Við berum öll ábyrgð á því að hjálpa börnunum sem búa við slæmar aðstæður og þess vegna styð ég við Barnahjálp SÁÁ með þessum hætti,“ sagði Anna aðspurð.

Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, er ánægður með samninginn. „Þessi samningur við Atlantsolíu gefur fólki sem vill styðja Barnahjálpina tæki til að veita þann stuðning á auðveldan og hagkvæman máta. Sá stuðningur mun hjálpa SÁÁ að veita börnum áfram sálfræðiþjónustu og hugsanlega að auka enn þjónustu samtakanna við börn alkóhólista í framtíðinni.“

Barnahjálp SÁÁ var stofnuð á uppstigningardag, þann 9. maí síðastliðinn, og hefur það að markmiði að aðstoða börn alkóhólista. Talið er að um 6.000 börn á Íslandi þjáist af völdum áfengis- og vímuefnasýki foreldra sinna. Lykilinn er hægt að nálgast á heimasíðu Atlantsolíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×