Innlent

Þjálfar hunda í dans, bíómyndir og húsverk

Hér eru nokkrir af hundum Auðar. Frá vinstri er Flóki, verðandi kvikmyndastjarna, Sóla, dansarinn Spuni og svo höfðinginn Tryggur sem gat meðal annars tekið úr þvottavél áður en hann fór á eftirlaun.
Hér eru nokkrir af hundum Auðar. Frá vinstri er Flóki, verðandi kvikmyndastjarna, Sóla, dansarinn Spuni og svo höfðinginn Tryggur sem gat meðal annars tekið úr þvottavél áður en hann fór á eftirlaun.

„Ætli hundarnir sem ég hef þjálfað séu ekki orðnir átta eða níu talsins,“ segir Auður Björnsdóttir, hundaþjálfari á Ísafirði, sem hefur í nógu að snúast þessa dagana.

Flóki, einn hunda Auðar, fer með hlutverk í kvikmyndinni Kalt vor sem tekin verður upp á Flateyri í sumar og þá hefur hundurinn Spuni sýnt þó nokkra leikni í dansi.

„Áhuginn kom til þar sem ég þjálfaði hund fyrir son minn þegar hann var lítill. Það vakti töluverða athygli og síðan þá hef ég tekið að mér einn og einn hund,“ segir Auður.

Viðar, sextán ára gamall sonur Auðar, er með vöðvarýrnunarsjúkdóm og þjálfaði hún hundinn Trygg til að vera honum til aðstoðar. Tryggur lærði meðal annars að opna dyr, kveikja ljós, draga hjólastól og taka úr þvottavél. „Nú er hann hins vegar orðinn gamall og kominn á eftirlaun,“ segir hundaþjálfarinn.

Auður lærði hundaþjálfun í Noregi og hefur síðan þjálfað átta til níu hunda til ýmissa verka, meðal annars fyrir fatlaða og flogaveika.

„Það getur skipt flogaveika miklu máli að eiga hund sem lætur þá vita áður en kastið kemur. Það verða ákveðin efnaskipti í líkamanum og hundarnir finna lyktina af því og geta látið eigendur sína vita allt að 40 mínútum áður en kastið kemur,“ útskýrir Auður.

„Ég hef verið að þjálfa einn og einn hund í gegnum árin. Það líða kannski tvö ár á milli hunda þannig að þetta er ekki aðalstarf mitt enda kaupið lágt.“

Sem fyrr segir fer hundurinn Flóki, sem er schnauzer, með hlutverk í íslenskri bíómynd í sumar. Hann reyndi þó fyrst fyrir sér í dansi.

„Flóki kann ýmis trix. Hann byrjaði í dansinum en þótti ekki nógu efnilegur, var ekki nógu taktviss, og fór því yfir í leiklistina,“ segir Auður. „Hann er mjög skemmtilegur hundur og sterkur karakter. Hefur miklar skoðanir á fólki og hlutum. Hann horfir líka mikið á sjónvarp og uppáhaldsþættirnir hans eru dýralífsþættir.“

Ólíkt Flóka hefur hundurinn Spuni, sem er border collie, sýnt góð tilþrif í dansinum. „Þetta er svona free-style hundadans en það er nú meira áhugamál. Við höfum svolítið verið að dansa við Reiðmenn vindanna,“ segir Auður sem er systir Helga Björnssonar, forsprakka hljómsveitarinnar. „Takturinn og hraðinn í lögunum hentar ágætlega. Dansinn hjá Spuna snýst svolítið um það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×