Innlent

Geðgjörgæsla opnuð næstkomandi haust

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Geðgjörgæsludeild Landspítalans mun þjónusta órólegustu og veikustu sjúklingana sem lagðir eru inn vegna geðsjúkdóma.
Geðgjörgæsludeild Landspítalans mun þjónusta órólegustu og veikustu sjúklingana sem lagðir eru inn vegna geðsjúkdóma. Fréttablaðið/Valli

Fyrsta geðgjörgæsla landsins verður opnuð í húsnæði Landspítalans við Hringbraut næsta haust. Á deildinni munu dvelja órólegustu og veikustu sjúklingarnir en mikil þörf hefur verið fyrir frekari aðskilnaði á geðdeildum spítalans.

Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs, segir deildina afar mikilvægt skref í rétta átt í þróun geðheilbrigðismála í landinu. Öryggi og þjónusta við sjúklinga verði bætt og starfsfólk deildarinnar muni fá sérstaka þjálfun í að annast órólega sjúklinga.

„Umhverfið skiptir höfuðmáli í svona þjónustu og talað er um það sem þriðja manninn í þjónustunni,“ segir hann. „Álagið minnkar á bæði starfsfólk og sjúklinga þegar umhverfið er öruggt og aðlaðandi.“ Verkefnið verður kostnaðarsamt, en í byrjun árs veitti velferðarráðuneytið 15 milljónir króna til þess.

Páll bendir þó á að til að deildin verði nothæf þurfi að lágmarki 40 milljónir. „Það yrði samt bara svona „Suzuki Swift-útgáfan“ af deildinni. Hún sleppur,“ segir hann. „En ef hún á að mæta þeim kröfum sem við setjum þá kostar hún 100 milljónir – en þá er líka komin góð „Volvo-útgáfa“.“

Geðgjörgæslan, hin gamla 32C, mun hafa karla- og kvennasvefnálmur og sérherbergi, en það hefur ekki verið þannig áður. Deild 32C verður lokað í tvo mánuði yfir sumartímann á meðan framkvæmdir standa yfir. Páll býst ekki við því að lokun deildar í tvo mánuði muni koma að sök, þar sem þjónustan dregst líka yfirleitt saman á þessum tíma, mest á fíknideildinni.

„Við veljum júlí oftast til að loka vegna viðhalds og fleira,“ segir hann. „Þá er rólegra og sérstaklega er áhugi á fíknimeðferð minni, fram yfir verslunarmannahelgi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×