Innlent

Mikil uppbygging í vændum á Grænlandi

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Svend HArdenberg Í erindi sínu í Hörpu í gær fjallaði Hardenberg um fjárfestingartækifæri á Grænlandi en mikil uppbygging stendur þar fyrir dyrum á næstu árum.Fréttablaðið/GVA
Svend HArdenberg Í erindi sínu í Hörpu í gær fjallaði Hardenberg um fjárfestingartækifæri á Grænlandi en mikil uppbygging stendur þar fyrir dyrum á næstu árum.Fréttablaðið/GVA

Gríðarleg uppbygging er fyrirsjáanleg á Grænlandi á næstu árum í tengslum við auðlindanýtingu.

Helsta markmið Grænlendinga með framkvæmdunum er ekki ríkidæmi heldur sjálfstæði. Þá felast tækifæri í uppbyggingunni fyrir Ísland. Þetta segir Svend Hardenberg, sveitarstjóri í Qaasuitsup í Grænlandi og stofnandi Greenland Invest. Hardenberg var meðal ræðumanna á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, um tækifæri á norðurslóðum í Hörpu á fimmtudag.

„Það er óumdeilt að það eru mikil fjárfestingartækifæri á Grænlandi. Þar er að finna olíu og gas og þá má byggja upp stóriðju í tengslum við virkjun vatnsfalla. Námavinnsla er þó það sem sennilega liggur beinast við,“ segir Hardenberg og heldur áfram: „Það eru mikil verðmæti í grænlenski jörð og þau er að finna á stöðum þar sem fólk býr ekki. Það er því heppilegra að stunda námavinnslu á Grænlandi en til dæmis í Evrópu þar sem fólk er alls staðar skammt undan.“

Ljóst er að mikil tækifæri felast í uppbyggingu á Grænlandi og getur hin fámenna þjóð Grænlendinga fljótt orðið mjög auðug gangi hugmyndir um fjárfestingarnar þar eftir. Hardenberg segir að þegar sé undirbúningur vegna nokkurra stórra fjárfestingarverkefna hafinn en bætir við að ríkidæmi sé ekki markmið Grænlendinga í sjálfu sér.

„Sjálfstæði er mjög ofarlega í huga Grænlendinga og það er líklega helsta ástæðan fyrir því að við viljum setja þessi verkefni af stað. Þau geta gert okkur kleift að fá efnahagslegt sjálfstæði en jafnvel þó að lífskjör hér mundu versna myndum við heldur kjósa sjálfstæðið,“ segir Hardenberg sem bætir við að Grænland hafi fengið heimastjórn fyrir ríflega 30 árum og að hann vonist til þess að fullt sjálfstæði fáist fyrr en eftir önnur 30 ár.

Spurður hvort Grænlendingar óttist umhverfisleg áhrif stórframkvæmdanna eða að alþjóðleg fyrirtæki njóti alls ágóðans svarar Hardenberg:

„Við gefum engan afslátt af kröfum um hvernig skuli staðið að þessum framkvæmdum þannig að umhverfið beri sem minnstan skaða af. Þá erum við meðvituð um að þessi fyrirtæki eru að koma hingað til að græða peninga. Við hins vegar krefjumst þess að fá sanngjarnan skerf af því sem er til skiptanna. Þá leitum við liðsinnis færustu sérfræðinga í okkar samskiptum við fyrirtækin og lítum einnig til reynslu annarra þjóða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×