Innlent

Kirkjan vill halda fimmtudagsfrídögum

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Kristján Valur Ingólfsson
Kristján Valur Ingólfsson

Íslensku þjóðkirkjunni líst illa á þær tillögur að frídagar í miðri viku verði færðir að helgum.

Samtök atvinnulífsins (SA) vilja færa til slíka frídaga en kveðið er á um þá bæði í kjarasamningum og í lögum. Vinnandi Íslendingar hafa sennilega flestir orðið varir við nokkurn fjölda frídaga frá páskum og fram á sumar. Á það tímabil falla sérstöku frídagarnir annar í páskum, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, uppstigningardagur og annar í hvítasunnu.

Tveir þessara daga, sumardagurinn fyrsti og uppstigningardagur, eru alltaf á fimmtudegi og þá er 1. maí oft í miðri viku, síðast í ár þegar hann var á miðvikudegi. SA hafa lengi talað fyrir því að þeir frídagar sem eru í miðri viku verði færðir að helgi eða þá lagðir niður gegn fleiri orlofsdögum. Telja samtökin að með slíkri breytingu væri hægt að auka hagræði í rekstri fyrirtækja og bæta framleiðni og afköst.

Hefur enda könnun meðal félagsmanna SA leitt í ljós að 80% forsvarsmanna fyrirtækja eru fylgjandi tilfærslu frídaga. Eins og áður sagði er annar fimmtudagsfrídaganna uppstigningardagur, sem er einn helsti hátíðisdagur kristinnar kirkju en þá er himnafarar Jesú minnst.

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, segir að kirkjan myndi mjög sjá eftir fríi á uppstigningardegi og hvetur til þess að staðinn sé vörður um hefðir.

„Við mundum sakna þessa dags. Það er enginn vilji fyrir því af hálfu kirkjunnar að þessu verði breytt,“ segir Kristján Valur og heldur áfram: „Við munum í það minnsta alltaf halda upp á uppstigningardag á þessum degi. Ja, svo lengi sem við kunnum að telja en hann skal vera 40 dögum eftir páska. En hitt er annað mál að þetta er ekki á okkar valdi heldur löggjafans og ef hann vill fella uppstigningardag niður sem frídag þá þurfum við bara að beygja okkur fyrir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×