Innlent

Þurfti að loka fyrir rafmagnið

Svavar Hávarðsson skrifar
Tekið var á móti rúmlega 19.000 tonnum af kolmunna á Vopnafirði. mynd/hb grandi
Tekið var á móti rúmlega 19.000 tonnum af kolmunna á Vopnafirði. mynd/hb grandi

Rétt náðist að bræða síðasta kolmunnatonnið á Vopnafirði áður en verksmiðja HB Granda á staðnum var svipt orku til bræðslunnar. „Við höfum keyrt fiskimjölsverksmiðjuna á svokallaðri ótryggri raforku en aldrei lent í teljandi vandræðum fyrr en nú. Við fengum að halda rafmagninu fram yfir hádegi síðastliðinn mánudag og það munaði ekki miklu að við næðum að bræða síðasta kolmunnaaflann um svipað leyti,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði, í frétt á vef fyrirtækisins.

Þar segir að vatnsbúskapur í uppistöðulónum virkjana á Norðurlandi sé mun lakari en menn hafi átt að venjast undanfarin ár og því hefur þurft að grípa til skerðingar á raforku til stóriðju og fyrirtækja sem verið hafa með samninga um kaup á ótryggri raforku. Að sögn Sveinbjörns er þetta í fyrsta sinn sem raforkuskortur bitnar að einhverju marki á fiskmjölsverksmiðjum á Norðaustur- og Austurlandi. Tekið var á móti rúmlega 19.000 tonnum af kolmunna á Vopnafirði á þeim rúma mánuði sem veiðarnar stóðu yfir en tvívegis lönduðu skip HB Granda afla í Færeyjum vegna veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×