Innlent

Börnin áhugasöm um slökun og svefn

Dans-fitness vakti mikla lukku.
Dans-fitness vakti mikla lukku. Myndir/Valli

„Þetta hefur verið alveg frábært, og það er svo gaman að sjá hvað krakkarnir taka vel í þetta,“ segir Áslaug Traustadóttir, kennari í Rimaskóla.

Gleðin var við völd á uppskeruhátíð skólans sem haldin var í Gufunesbæ í Grafarvogi í gær. Lífsstíl sem valgrein í Rimaskóla er skipt í fjóra hluta sem eru næringarfræði, svefnvenjur og slökun, heilsumatreiðsla og hreyfing. Áslaug er annar umsjónarmaður átaksins og segir það hafa gefið góða raun.

Á uppskeruhátíðinni kenndi ýmissa grasa, meðal annars fór fram klifurkennsla í turni, FOLF, íslenska frisbígolffélagið leiðbeindi nemendum í frisbígolfi og taekwondo-deild ÍR sýndi bardagalistir og braut spýtur. Námskeiðinu er ætlað að stemma stigu við síversnandi heilsu íslenskra ungmenna.

Umræða um heilsufar og líkamsástand íslenskra ungmenna hefur verið áberandi undanfarin ár. Æ fleiri eiga við heilsufarsvanda að stríða og yfirþyngd íslensku þjóðarinnar mælist vaxandi, ekki eingöngu meðal ungmenna. Nemendur fá að spreyta sig á eldamennsku eftir uppskriftabók sem umsjónarmenn hafa útbúið með heilsusamlegum réttum. Þeir fá líka að prófa sem flestar íþróttagreinar, nokkuð sem vakti mikla lukku og flestir fundu eitthvað við sitt hæfi.

„Það kom fljótlega í ljós að mörg barnanna höfðu aldrei haft tækifæri til að prófa þessar íþróttir og finna þannig hreyfingu við sitt hæfi,“ segir Áslaug og bætir við að íþróttaiðkun barna sé kostnaðarsöm og því ekki hægt um vik fyrir barnafjölskyldur að prófa sig áfram þar til rétt íþróttagrein eða form hreyfingar sé fundin fyrir börnin.

„Það var einnig gaman að sjá hvað nemendurnir voru áhugasamir um djúpslökun og svefnvenjur, en þessi hugmynd okkar Eyrúnar Ragnarsdóttur spratt út frá því hversu algengt brottfall úr íþróttum er meðal unglinga.“ Þetta segir Áslaug meðal annars stafa af því að margir unglingar séu í tölvum langt fram á nætur.

„Með því að segja þeim hvaða áhrif ónægur svefn og hvíld hafa vonum við að þau tileinki sér heilbrigðari svefnvenjur.“

Umsjónarmenn átaksins, þær Áslaug og Eyrún, hafa útbúið námsbók, kennsluáætlun, ítarefni, uppskriftir og vinnubækur fyrir nemendur og vona þær að með því að vekja athygli á þessu muni fleiri grunnskólar fylgja á eftir. Átakið er styrkt af Landlæknisembættinu. 

Taekwondo-deild ÍR sýndi spýtubrot með handafli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×