Innlent

Gunnar Smári býður sig ekki aftur fram

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Gunnar Smári Egilsson segir ákvörðun sína um að bjóða sig ekki aftur fram til formanns SÁÁ persónulega.
Gunnar Smári Egilsson segir ákvörðun sína um að bjóða sig ekki aftur fram til formanns SÁÁ persónulega. Fréttablaðið/Teitur
 „Þetta er bara persónuleg ákvörðun hjá mér. Þetta tengist í raun engu sérstöku,“ segir Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ sem hefur ákveðið að bjóða sig ekki aftur fram til formannsembættis félagsins.

Gunnar Smári tilkynnti stjórnarmönnum og starfsfólki tíðindin á fundi síðastliðinn laugardag. Hann segir að sér hafi fundist rétt að tilkynna ákvörðun sína með góðum fyrirvara fyrir ársfund félagsins.

Aðspurður hvort að ákvörðun hans tengist að einhverju leyti átökum innan samtakanna segir hann svo ekki vera en bætir við: „Í stórum hópi er alltaf einhver ágreiningur um stefnur og strauma og stundum er ágætt að það komi bara fram. Það er ekki alltaf best að leysa allt í bakherbergjum. En mér fannst hins vegar rétt að ég drægi mig til hlés í þágu stefnunnar í stað þess að takast á við menn.“

Hann segist sáttur við sitt starf og stoltur af því að samtökin hafi ekki þurft að skerða þjónustuna við sinn sjúklingahóp þrátt fyrir niðurskurð og erfiða tíma. Að sögn Gunnars Smára hafa samtökin mætt niðurskurði með því að fjölga félögum og auka söfnunarfé frá almenningi.

„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt. Ég er búinn að vera hér í fimm ár, tvö ár sem formaður, og farið í gegnum tíma samdráttar og kreppu. Starfsmenn, félagar, stjórnarmenn geti verið stoltir af síðustu árum og hvernig samtökin hafa komist í gegnum erfiða tíma. Við höfum haldið úti svo til óbreyttri þjónustu og aukið hana ef eitthvað er. Við höfum reyndar þurft að ganga svolítið á eignir okkar, ekki sjóði, en við höfum ekki sinnt viðhaldi á fasteignum og öðru slíku.“

Aðspurður hvað taki við að loknu formannsembætti segir Gunnar Smári ekki tímabært að ræða það opinberlega. „Ég er að skoða ákveðna hluti. Lífið hefur nú alltaf komið mér skemmtilega á óvart. Ég má því ekki hugsa of mikið um eitt ákveðið, það þarf að vera pláss fyrir það óvænta og skemmtilega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×