Innlent

Úthafskarfavertíðin lofar góðu

Svavar Hávarðsson skrifar
Fjögur skip frá HB Granda eru á miðunum. mynd/hbgrandi
Fjögur skip frá HB Granda eru á miðunum. mynd/hbgrandi
Úthafskarfavertíðin lofar góðu samkvæmt fyrstu fréttum á miðunum á Reykjaneshrygg. Veiðarnar hófust á miðnætti í gær og þegar stundin rann upp voru 12 íslenskir frystitogarar komnir á miðin. Fjöldi erlendra skipa er einnig á miðunum við 200 mílna lögsögumörkin, þar sem veiðin er jafnan best í upphafi vertíðar.

Á heimasíðu HB Granda segir frá því að fjögur skip fyrirtækisins eru á veiðum. Að sögn Heimis Guðbjörnssonar, skipstjóra á Helgu Maríu AK, var aflinn í fyrsta holli 20 tonn af karfa eftir að hafa dregið í tólf tíma. Það gera 1,5 tonn á togtímann, en menn er sáttir við tonnið. Aflabrögð eru því prýðileg og lofa góðu.

Að sögn Heimis hafa einir 15 rússneskir togarar, fjórir til fimm spænskir og svipaður fjöldi færeyskra og norskra togara verið á veiðisvæðinu við lögsögumörkin, en þær upplýsingar segist Heimir hafa fengið hjá rússneskum skipstjóra í fyrradag.

Heimir segir karfann sem veiðist vera ágætan, og mest sé um millistóran karfa en einnig verði vart við smærri karfa í bland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×