Innlent

Stjórnarmyndun gæti lokið í þessari viku

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Stjórnmál Farið er að sjást til lands í stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins en formlegar viðræður hafa staðið yfir frá því sunnudaginn 5. maí. Þetta segir Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

„Ég held að við séum loksins farin að sjá fyrir endann á þessu,“ segir Svanhildur og bætir við að hún eigi frekar von á því að viðræðunum ljúki í þessari viku.

Þeir Bjarni og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, funduðu alla helgina um stjórnarmyndunina ásamt aðstoðarmönnum sínum. Í gær var fundað fram á kvöld á ótilgreindum stað á Suðurlandi og stóð til að hefja viðræður aftur snemma í dag. Segir Svanhildur að nokkur árangur hafi náðst um helgina.

Síðdegis í dag mun þingflokkur Sjálfstæðisflokksins funda í Valhöll um gang viðræðnanna en ekki hefur verið skipulagður þingflokksfundur hjá Framsóknarflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×