Innlent

Rakst á hreindýr á illkleyfum fjallstindi

Svavar Hávarðsson skrifar
Tarfurinn er veturgamall og var sennilega að sækja í æti. Höfn í Hornafirði í baksýn.
Tarfurinn er veturgamall og var sennilega að sækja í æti. Höfn í Hornafirði í baksýn. Mynd/Sigurður Ragnarsson
„Ég var í heilsubótargöngu á Ketillaugarfjalli þegar ég rakst á hreindýrið þarna á toppi fjallsins. Hingað til hef ég aldrei rekist á neitt kvikt þarna nema fugla,“ segir Sigurður Ragnarsson, nemi frá bænum Akurnesi í Nesjum.

Sigurður lagði á fjallið 17. apríl og þegar hann var kominn í um 600 metra hæð tók hann eftir dýrinu þar sem það stóð á eystri hluta tindsins, en hann er klofinn frá þeim vestari með klettaskorum. „Töluvert klettaklöngur er að komast þarna upp og ljóst að dýrið hefur þurft að hafa fyrir þessu. Þegar dýrið varð vart við mig fór það í skjól sunnan í tindinum. Mér datt fyrst í hug að dýrið væri í sjálfheldu,“ segir Sigurður sem gat ekki fylgst með því hver næstu skref dýrsins voru. „Það var náttúrulega frekar skrítið að rekast á eitt dýr þarna uppi. Á þessum árstíma halda þau sig flest á eða við tún bænda,“ segir Sigurður, sem ráðfærði sig við Skarphéðin Þórisson, sérfræðing hjá Náttúrustofu Austurlands (NA).

Í svari hans kemur fram að hreindýrið var veturgamall tarfur; líklega að sækja í æti. Staðurinn bendi til að dýrið var vel á sig komið, en NA hafa áður borist fregnir af hreindýrum uppi á fjallstindum, og það jafnvel mörg saman. Eins hafi merki frá „senditækjakusunni Grímu“ sýnt að hún dvaldi í júníbyrjun 2009 í þúsund til tólf hundruð metra hæð í Þjófadölum á bak við Snæfell, sem rís í 1.833 metra hæð 20 kílómetra norðaustan Brúarjökuls í norðanverðum Vatnajökli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×