Innlent

Ráðherraskipan hefur lítillega verið rædd

Stjórnarmyndurnarviðræðum þeirra Bjarna og Sigmundar Davíðs miðar vel. Niðurstöður ættu að liggja fyrir eftir helgi. Fréttablaðið/Vilhelm
Stjórnarmyndurnarviðræðum þeirra Bjarna og Sigmundar Davíðs miðar vel. Niðurstöður ættu að liggja fyrir eftir helgi. Fréttablaðið/Vilhelm
Fundað var um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í sumarhúsi í Biskupstungum í gær. Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, héldu áfram að finna sameiginlegan flöt á stefnumálum sínum. Aðstoðarmenn þeirra, þau Jóhannes Þór Skúlason og Svanhildur Hólm Valsdóttir, taka einnig þátt í viðræðunum.

Jóhannes Þór sagði í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi að fundað hefði verið frá hádegi um allt á milli efnahagsmála og mennta- og heilbrigðismála. Sameiginlegur grundvöllur hefur fundist í öllum þessum málum, segir hann.

Inntur eftir því hvort ráðherraskipan hafi borið á góma svarar Jóhannes Þór: „Lítið. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun enn þá. Það er fyrst og fremst verið að vinna á málefnagrundvelli.“

Jóhannes Þór segir að ekki hafi steytt á mörgu í viðræðunum. Skuldamál og skattamál hafi verið rædd á síðustu dögum í víðu samhengi en ekki hafi verið farið djúpt í afmarkaða þætti málefnanna. Hann býst ekki við niðurstöðu fyrr en eftir helgi.

Formennirnir og aðstoðarmennirnir funda aftur í dag, nú á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×