Fótbolti

Svekkjandi því ég var til í að vera áfram

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
með landsliðinu Helgi Valur Daníelsson hefur verið fastamaður í landsliði Lars Lagerbäck.fréttablaðið/vilhelm
með landsliðinu Helgi Valur Daníelsson hefur verið fastamaður í landsliði Lars Lagerbäck.fréttablaðið/vilhelm
Landsliðsmaðurinn Helgi Valur Daníelsson er í leit að nýju félagi eftir að félag hans, AIK í Svíþjóð, tilkynnti honum að það myndi ekki framlengja samning hans sem rennur út í lok ársins.

„Eins og er þá er ekkert að gerast í mínum málum. Ég má fara en þeir vilja fá einhvern pening fyrir mig," segir Helgi Valur en hann getur líka klárað samninginn og farið er honum lýkur.

„Það er kannski ekkert betra ef ég fæ ekkert að spila á tímabilinu. Þetta er því engin óskastaða. Þetta er búið að vera rólegt. Þær fyrirspurnir sem ég hef fengið hafa ekki verið spennandi."

Öster hafði samband við hann fyrir áramót en Helgi vildi ekki svara þeim eins fljótt og þeir vildu. „Félagið hefur gert mér ljóst að það tekur aðra leikmenn fram yfir mig. Það eru tveir ungir leikmenn að fara að spila núna. Það er samt sérstakt að vera búinn að velja byrjunarlið í desember sem á að spila í apríl. Þetta er svekkjandi því ég spilaði vel í fyrra og endaði tímabilið vel. Ég hefði verið til í að framlengja og vera hérna áfram en það var ekki í boði."

Deildarkeppnin í Svíþjóð byrjar eftir mánuð en bikarkeppnin byrjar í næstu viku. AIK lék þrjá æfingaleiki um daginn og var Helgi í byrjunarliðinu í einum þeirra og kom af bekknum í hinum.

„Ég spila ekki nema 2-3 detti út. Það hefur gengið illa í þessum leikjum og við verðum að sjá hvað setur. Þetta er svekkjandi upp á landsliðið því ég hef metnað fyrir að halda mér þar inni. Þá verð ég að spila," segir Helgi en er hann svartsýnn á að komast ekki frá félaginu áður en deildarkeppnin byrjar?

„Já, eins og er. Það er ekkert að gerast í mínum málum. Það er svolítið svekkjandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×