Skoðun

Falleinkunn fyrir stjórnendur Landspítalans

Guðl. Gauti Jónsson skrifar
Við eigum frábært heilbrigðiskerfi. Sama hvaða mælingar eru notaðar erum við í hópi þeirra þjóða sem koma best út í samanburði. Þetta á líka við eftir árið 2008. En við erum að draga saman og það er erfitt.

Leikmanni sýnist að gerð hafi verið mistök. Starfsmannaflóttinn er nokkuð skýr ábending til stjórnenda og stjórnvalda um að svo sé.

Íslendingar eru vanir átaksverkefnum og lotuvinnu. Starfsfólk Landspítalans gekk til verka eftir hrun með því hugarfari. Það tók á sig meiri vinnu, skert laun og verri aðbúnað fyrir sig og skjólstæðinga sína. Það gekk af æðruleysi til starfa og sumir, sem töldu sig þurfa aukin laun til að standa við skuldbindingar sínar, sóttu þau með ærinni fyrirhöfn í öðrum störfum og/eða öðrum löndum.

Kunnáttan til að að draga saman starfsemina var minni en til að auka við hana. Auk þess er erfitt að segja til um það á líðandi stundu hvenær komið er að þanmörkum og hvenær farið er yfir strikið. Fréttir og frásagnir síðustu mánuði benda til að það síðara hafi verið raunin. Öfugt við það sem oftast gerist í lotuvinnu var ekki um neina umbun eða ánægjuauka að ræða heldur fór ástandið versnandi dag frá degi.

Framkoma æðstu stjórnenda spítalans og stjórnvalda við starfsfólkið var og er með eindæmum klaufaleg og ónærgætin, svo ekki sé meira sagt. Frægt er þegar hækka átti laun forstjórans í september sl. um meira en heil mánaðarlaun annarra starfsmanna án þess að þeir fengju neitt. Þótt þessi niðurlægjandi aðgerð hafi verið dregin til baka var skaðinn skeður.

Stjórnendur höfðu sýnt starfsfólkinu lítilsvirðingu sem laskaði baráttuþrek þess og langlundargeð til frambúðar. Nú segir starfsfólkið fullum fetum að yfirmenn hafi komið illa fram við það. Í ofanálag er forgangsraðað á móti starfseminni og starfsfólkinu.

Á meðan sjúklingar og starfsfólk sæta óhóflegri aðstöðu- og kjaraskerðingu og tæki og húsakostur grotnar niður í kringum það hafa verið settar a.m.k. 1.500 milljónir króna í hönnun nýs spítala (2009-2012 skv. heilbrigðisráðuneyti) en trúlega meira en þreföld sú upphæð í verkefnið í heild. Ef áætlanir um að byggja spítalann á þessum stað ganga eftir mun Landspítalalóðin verða stærsti byggingarstaður Reykjavíkur um langt árabil. Það mun orsaka mikla truflun á starfsemi spítalans, gera auknar kröfur til starfsmanna og valda auknu álagi á þá.

Í deiliskipulagi Landspítalalóðarinnar kemur fram að starfsmenn muni þurfa að greiða bílastæðisgjald og að ekki verði bílastæði fyrir alla, sem sé í lagi því þeir geti komið til vinnu á reiðhjóli. Stjórnendur spítalans nefna það sem ástæðu fyrir því að velja spítalalóðina fyrir nýjan Landspítala, að margir af starfsmönnunum búi í nágrenni hans. Þeir munu þá þurfa að búa við aukna loftmengun, aukna hljóðmengun og aukinn gegnumakstur í hverfinu sínu, og lækkandi fasteignaverð.

Ég leyfi mér að fullyrða að yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna Landspítalans skilur ekki og styður ekki byggingu 50-100 milljarða spítala á meðan ástandið er óbreytt. Þeir tóku fullan þátt í varnarbaráttu fyrir heilbrigðiskerfið en æðstu stjórnendum spítalans og stjórnvöldum tókst með einu pennastriki að breyta þessu síðasta haust. Þessir sömu aðilar halda byggingarmálunum til streitu þvert á vilja mikils meirihluta almennings.

Hvernig endar það?




Skoðun

Sjá meira


×