Innlent

Brot gegn börnum hafa kallað á hömlulaus viðbrögð

Þorgils Jónsson skrifar
Helgi Gunnlaugsson segir hömluleysi ríkja, en það að svara harmleik með öðrum harmleik geri málin enn verri.
Helgi Gunnlaugsson segir hömluleysi ríkja, en það að svara harmleik með öðrum harmleik geri málin enn verri. Myndin er sviðsett.
Lögregla verður vör við að fólk reyni að taka lögin í sínar hendur. Félagsfræðingur rekur ástandið aftur til samfélagsbreytinga frá því fyrir hrun. Nauðsynlegt sé þó að beisla reiðina og treysta á að kerfið virki.

Almennir borgarar hafa í auknum mæli freistað þess að taka lögin í sínar hendur síðustu misseri, að mati lögreglu, og jafnvel beitt ofbeldi til að rétta sinn hlut eða annarra sem þeim finnst hafa verið brotið á. Þetta eigi þó aðeins við um kynferðisafbrotamál. Fræðimaður segir þróun til aukins hömluleysis í þessum málum mega rekja aftur til áranna fyrir hrun.

„Við erum með tvö nýleg tilfelli sem tengjast kynferðisafbrotamálum, annars vegar á Skagaströnd og hins vegar á Eyrarbakka, en svo kom líka upp svipað mál í okkar umdæmi á Þórshöfn í fyrra. Þetta veldur okkur áhyggjum og að okkar mati er þetta ótækt. Þó svo að einstaklingar hafi talið á sér brotið eða telji að þeir hafi verið beittir misrétti er þetta ekki lausnin," segir Gunnar Jóhannsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri, í samtali við Fréttablaðið.

Gunnar bætir því við að almenningur verði að átta sig á því að til séu réttar leiðir til úrlausnar, meðal annars í gegnum dómskerfið. Hefndaraðgerðir séu aldrei til bóta og geti haft víðtækar og slæmar afleiðingar auk þess sem sumir sem grípa til slíks koma til með að dauðsjá eftir öllu. „Við hvetjum fólk til að halda ró sinni og forðast það að taka gerræðislegar ákvarðanir sem verða til þess að maður gerir eitthvað sem erfitt er að taka aftur síðar."

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, rekur aukningu í þessum málum til tveggja meginþátta. Annars vegar er það fráhvarf frá þöggun um kynferðisafbrot og hins vegar aukið hömluleysi í viðbrögðum fólks, sem hann tengir breytingum og uppgjöri í samfélaginu sem reka má til aðdraganda hrunsins.

„Þessi umræða um kynferðisbrot gegn börnum undanfarið hefur losað um eitthvað í þjóðarsálinni og viðbrögðin hafa oft verið hömlulaus. Þar er fólk að fara fram úr sér og gerir einungis illt verra með því að svara harmleik með öðrum harmleik og það er dapurlegt að horfa upp á."

Helgi segir að í slíkum tilfellum sé nauðsynlegt að beisla reiðina og beina henni inn í eðlilegan farveg.

„Ef við leyfum reiðinni að ná stjórninni getur það haft ófyrirséðar afleiðingar. Kerfið er kannski illa búið eins og er en þá verðum við, sem samfélag, að taka á því. Samfélaginu verður að vera ljóst að kerfið megni að sjá um þessi mál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×