Fótbolti

Fótboltinn er í vanda

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Samsett mynd/Sylvía
Evrópska lögreglan, Europol, upplýsti í gær að ítarleg rannsókn hennar á hagræðingu úrslita í knattspyrnuleikjum hefði leitt í ljós að svindlað hefði verið í 680 leikjum.

Europol óttast að þetta sé aðeins toppurinn á ísjakanum. 380 grunsamlegir leikir sem voru rannsakaðir fóru fram í Evrópu og hinir 300 í öðrum heimshlutum. Um 700 leikir í 30 löndum voru skoðaðir.

Europol segir að einn leikur í Meistaradeildinni sé á meðal þeirra leikja þar sem svindlað hafi verið. Sá leikur fór fram á Englandi á síðustu þremur til fjórum árum en meira vildi Europol ekki segja í bili um þann leik. Rannsókn leiddi líka í ljós að úrslitum hefði verið hagrætt í leikjum á HM og EM.

Í Þýskalandi veðjuðu glæpamenn 14 milljónum punda á leiki sem þeir vissu hvernig myndu fara. Það eru rúmlega 2,7 milljarðar íslenskra króna. Græddu þeir á því 6,9 milljónir punda eða rúmlega 1,3 milljarð íslenskra króna. 350 milljónum var varið í að múta réttum aðilum í þessum leikjum.

Rannsókn Europol hefur staðið yfir í eitt og hálft ár. Þar kemur í ljós að þessu svindli er stýrt af skipulögðum glæpasamtökum í Asíu. Þau vinna svo með glæpasamtökum í Evrópu. 425 einstaklingar liggja undir grun í þessum umfangsmikla máli og þegar er búið að handtaka fimmtíu. Áttatíu húsleitir hafa einnig verið gerðar vegna málsins.

„Þetta er langstærsta rannsókn á svindli í evrópskum fótbolta sem gerð hefur verið. Hún hefur leitt í ljós risastórt vandamál í boltanum," sagði Rob Wainwright, yfirmaður Europol.

Wainwright greindi aðeins frá nákvæmum upphæðum í Þýskalandi og sagði svo að hæsta greiðslan hefði farið til manns í Austurríki. Hún hljóðaði upp á rúmar 24 milljónir króna.

Baráttan gegn svindli í fótboltanum er rétt að byrja. Flest mál sem hafa komið upp til þessa hafa verið í Þýskalandi. Þar er búið að handtaka fjórtán manns sem hafa samtals verið dæmdir til 39 ára fangelsisvistar. Einnig er búið að sakfella menn fyrir svindl í Finnlandi, Ungverjalandi, Slóveníu og Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×