Innlent

Ekki víst að fanginn hafi verið myrtur

Litla-Hraun. Annþór Karlsson og Börkur Birgisson hafa verið grunaðir um manndráp.
Litla-Hraun. Annþór Karlsson og Börkur Birgisson hafa verið grunaðir um manndráp. Fréttablaðið/stefán

Ekki er víst að dauðdagi Sigurðar Hólm Sigurðssonar, fanga á Litla-Hrauni, hafi verið af mannavöldum. Þetta kemur fram í krufningarskýrslu sem dagsett er 26. nóvember 2012.

Sigurður fannst látinn í klefa sínum 17. maí í fyrra. Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson, samfangar hans, voru nokkrum dögum síðar færðir í einangrun, grunaðir um að hafa ráðið honum bana. Málið er enn til rannsóknar.

Bráðabirgðakrufning virtist leiða í ljós að áverkarnir væru af mannavöldum, en í ítarlegri krufningarskýrslu Reginu Preuss frá því í nóvember segir að ekki sé hægt að slá því föstu.

Dánarmein Sigurðar var blæðing úr rofnu milta samkvæmt skýrslunni og þar segir að milta rofni ekki með þessum hætti upp úr þurru. „Vegna þess að gera verður ráð fyrir að miltað hafi rifnað sökum ytri bitlauss áverka á kviðarhol, koma annaðhvort slys eða áverki af annarra völdum til álita,“ segir í skýrslunni.

„Engu að síður leiddu hvorki krufning né frekari rannsóknir í ljós afdráttarlaus merki þess efnis hvort um utanaðkomandi áverka eða meiðsl af völdum byltu hefði verið að ræða.“- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×