Innlent

Hafnar ásökunum fórnarlamba

Karl Vignir hefur játað að hafa misnotað fjölda barna á vistheimilinu Kumbaravogi á meðan hann dvaldi þar sem starfsmaður.
Karl Vignir hefur játað að hafa misnotað fjölda barna á vistheimilinu Kumbaravogi á meðan hann dvaldi þar sem starfsmaður.
Róbert R. Spanó, fyrrum formaður vistheimilanefndar forsætisráðuneytisins, hafnar ásökunum Ernu Agnarsdóttur og Maríu Haraldsdóttur um að orð þeirra um að Karl Vignir Þorsteinsson hafi beitt þær og fleiri börn á vistheimilinu Kumbaravogi kynferðisofbeldi hafi ekki verið tekin trúanleg.

Í niðurstöðum skýrslu nefndarinnar segir meðal annars að það séu „meiri líkur en minni“ að börnin á heimilinu hafi verið beitt ofbeldi. Karl Vignir hafði þá játað brot sín og lá það fyrir.

„Það kemur afdráttarlaust fram niðurstaða um að þessar frásagnir hafi verið trúverðugar og í samræmi við önnur gögn málsins,“ segir Róbert. „Þá er ályktað með skýrum hætti með þeim mælikvarða sem nefndin notaði í öllum sínum störfum, þar sem hún mátti ekki fjalla um sekt eða sýknu einstakra manna, að hluti vistmanna hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þessa manns.“

Hann bætir við að nefndin hafði ekki lögregluvald og gat ekki samkvæmt lögum skyldað neina aðra en fyrrum starfsmenn vistheimilanna á sinn fund. „Hvað sem því líður höfðum við meðal annars upplýsingar um játningar þessa manns fyrir lögreglu á árinu 2007 sem við vísum beint til í niðurstöðunni,“ segir Róbert. „Við höfðum því allt sem við þurftum til að fjalla um þessar frásagnir sem voru að okkar mati sannleikanum samkvæmar.“

Fram kom í Kastljósi á þriðjudagskvöld að þær María og Erna hefðu leitað ýmissa leiða til að fá nefndina til að endurskoða orðalagið í skýrslunni. Það var ekki fyrr en þær leituðu til allsherjarnefndar Alþingis sem viðbrögð komu við athugasemdum þeirra. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×