Innlent

Segir ráðherra bera mikla ábyrgð

ÓKÁ skrifar
Elsa B. Friðfinnsdóttir
Elsa B. Friðfinnsdóttir
Hvorki gengur né rekur í kjaraviðræðum hjúkrunarfræðinga og Landspítala háskólasjúkrahúss.

„Deilan er enn í hnút og stjórnvöld virðast því miður ekki gera sér grein fyrir alvöru málsins,“ segir Elsa Björk Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. „Það hefur ekkert gerst síðan fyrir jól,“ segir hún og minnir á að það styttist í að hjúkrunarfræðingar gangi út.

Í desember sögðu 240 hjúkrunarfræðingar upp störfum á spítalanum vegna óánægju með vinnuaðstöðu og launakjör. Uppsagnir þeirra taka gildi 1. mars næstkomandi. Í hópnum eru hjúkrunarfræðingar með mikla sérhæfingu og útlit er fyrir að starfsemi spítalans muni raskast verulega nái uppsagnirnar fram að ganga.

Síðan í desember hafa staðið yfir viðræður um endurskoðun á stofnanasamningi Landspítalans við hjúkrunarfræðinga.

Elsa segist vita til þess að heilbrigðisráðherra hafi verið í fríi og það kunni að skýra hægari gang í viðræðum undanfarið. Hún bendir á að nú séu komnir fjórir mánuðir síðan ráðherra ætlaði að hækka laun forstjóra spítalans, en það hafi verið dropinn sem fyllti mælinn hjá hjúkrunarfræðingum. „Ráðherra ber því ansi mikla ábyrgð á því sem komið er. Á þessum tíma hefur bara verið fundað og varpað fram hugmyndum, en án árangurs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×