Innlent

ASÍ vill fá umsaminn kaupmátt

GAR skrifar
„Við viljum ekki hafa frumkvæði að því að opna samningana heldur frekar reyna að standa við þá eins og við getum," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samkvæmt samningi ASÍ og SA eiga laun almennt að hækka um 3,25 prósent um mánaðamótin. Báðir aðilar hafa frest til 21. janúar vilji þeir taka samninginn upp. Fulltrúar þeirra hittast í dag til viðræðna.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að miðað hafi verið við 2,5 prósenta verðbólgu en að hún sé nú 4,2 prósent og kaupmáttur sé því að rýrna en ekki aukast. „Vandamálið er að fyrirtækin hafa hækkað of mikið verð á vörum og þjónustu og við því þarf að bregðast. Þetta er vandamálið og menn geta ekkert stungið hausnum í sandinn með það," segir hann.

Vilhjálmur segir SA líta til þess að ríkið hafi aðeins lækkað tryggingargjald á fyrirtæki um 0,1 prósent en ekki 0,75 prósent eins og reiknað hafi verið með. Þess utan vanti um 100 milljarða króna inn í hagkerfið á þessu ári miðað við forsendur samningsins. „Staða fyrirtækjanna til að rísa undir þeim hækkunum er verri en við gerðum ráð fyrir," segir hann.

Gylfi segir að þótt fyrirtæki tali um vanda séu mörg þeirra með methagnað. Verði samningnum sagt upp sé ekki ólíklegt að til átaka komi. „Þá hljóta atvinnurekendur að gera sér grein fyrir því að hér gæti orðið ólga á vinnumarkaði," segir forseti ASÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×