Innlent

Flóttamenn rukkaðir um málskostnað

Þeir sem bíða hælis hér á landi eru vistaðir á Fit-hostel í Reykjanesbæ. Þeir fá 7.500 krónur vikulega til framfærslu.
Þeir sem bíða hælis hér á landi eru vistaðir á Fit-hostel í Reykjanesbæ. Þeir fá 7.500 krónur vikulega til framfærslu.

Flóttamenn sem reyna að komast inn í landið á fölsuðum skilríkjum eru kærðir fyrir það brot. Þeim er skipaður verjandi þar sem fæstir þeirra tala íslensku, og þurfa að greiða þann kostnað sjálfir, 125 þúsund krónur, verði þeir sakfelldir. Hælisleitendur sem dvelja á gistiheimilinu Fit fá 7.500 krónur á viku til framfærslu.

Helga Vala Helgadóttir lögmaður gagnrýnir þetta mjög. Hún segir fæsta hafa val um annað en að koma hingað til lands á fölsuðum skilríkjum. Flóttamennirnir séu oftar en ekki að flýja stjórnvöld í heimalandi sínu og eigi því erfitt um vik að fá rétt skilríki frá stjórnvöldum. „Það eru ofboðslega fáir hælisleitendur sem koma hingað á eigin skilríkjum. Þeir eiga þau bara ekki, þeir eru flóttamenn.“

Við komuna hingað taki við mikill hamagangur og málum ljúki svo hratt að ekki sé hægt að sækja um gjafsókn, því búið sé að flytja málið áður en gjafsóknarnefnd fær beiðnina í hendurnar. „Viðkomandi er tekinn í Leifsstöð og daginn eftir ertu mætt niður í héraðsdóm með hann og ef hann ætlar einhvern veginn að reyna að slást á flóttamannasamningnum þá færðu einn dag til að verjast gæsluvarðhaldi og kæra það, undirbúa aðalmeðferð og flytja ræðuna. Allt gerist þetta á svona fjórum dögum og viðkomandi er dæmdur á staðnum.“

Helga Vala segir kostnaðinn mikinn fyrir hælisleitendur og þeir hafi engin ráð til að greiða hann. „Er þá málið að þeir eigi að hafna því að fá lögmenn? Að fá verjendur? Það hlýtur eiginlega að vera.“

Stóð í vegi fyrir dvalarleyfi

Helga Vala nefnir dæmi um hælisleitanda sem dæmdur var fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum við komuna hingað til lands. Hann hafi síðan eignast fjölskyldu, íslenska konu og barn, en skuldin vegna málskostnaðarins hafi sett strik í reikninginn. „Hann ætlaði að hætta í því ferli að vera hælisleitandi til að vera ekki hér á kostnað ríkisins. Þá þarf hann að byrja á því að borga niður reikninginn í héraði og Hæstarétti áður en hann getur sótt um dvalarleyfi á grundvelli fjölskylduaðstæðna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×