Innlent

Leigi íbúðir sínar út sem allra fyrst

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eyþór Arnalds, er formaður bæjarráðs Árborgar sem segir vaxandi þörf á leiguhúsnæði í sveitarfélagiinu.
Eyþór Arnalds, er formaður bæjarráðs Árborgar sem segir vaxandi þörf á leiguhúsnæði í sveitarfélagiinu. Fréttablaðið/GVA
Bæjarráð Árborgar skorar á Íbúðalánasjóð að koma húsnæði, sem er í eigu sjóðsins og stendur autt, tafarlaust í íbúðarhæft ástand og í útleigu.

Bæjarráðið segir að vaxandi eftirspurn sé eftir húsnæði í Árborg og stefni í óefni hjá fjölda fólks.

„Færa má rök fyrir því að á annað hundrað fjölskyldur og einstaklingar séu nú í þörf fyrir leiguhúsnæði,“ segir bæjarráðið sem kveður þverpólitískan vilja hjá þingmönnum Suðurkjördæmis til þess að koma húsnæði Íbúðalánasjóðs í útleigu.

„Meira en ár er síðan þingmenn Suðurkjördæmis áttu fund með framkvæmdastjóra og formanni stjórnar Íbúðalánasjóðs, þar sem lýst var þverpólitískum og afdráttarlausum vilja til þess að koma húsnæði sjóðsins í útleigu sem allra fyrst, hvort heldur væri í sölu til sjálfstæðra leigufélaga eða sem hluta af eigin leigufélagi sem stofnað var með lögum frá Alþingi árið 2012. Þar voru tekin af öll tvímæli um að það væri einnig hlutverk Íbúðalánasjóðs að leigja út húsnæði á sanngjörnu verði og stuðla með þeim hætti að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði þar sem mikill skortur ríkir á leiguhúsnæði.

Bæjarráð Árborgar hvetur Íbúðalánasjóð til þess að ráða bót á þessu málum án tafar og koma íbúðunum á leigumarkað hið fyrsta, með þeim hætti sé best  komið til móts við þá miklu  eftirspurn sem er eftir húsnæði í sveitarfélaginu og snertir sérstaklega ungt og efnaminna fólk sem ekki er í stakk búið til að festa kaup á eigin húsnæði um þessar mundir,“ segir í bókun bæjarráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×