Innlent

Krafa um uppgjör við KÍ

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður
Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður
Deila stjórnar Vísindasjóðs Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum við Kennarasamband Íslands, KÍ, um umsýslu sjóðsins sem staðið hefur á þriðja ár er enn í hnút.

Stjórnin hefur falið Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanni að undirbúa kröfu um uppgjör við KÍ.

„Það er ljóst að það á eftir að fara fram fjárhagslegt uppgjör milli stjórnar Vísindasjóðsins og kennarahússins vegna utanumhalds á sjóðnum og viðskilnaðarins við KÍ. Það er ljóst að verið er að halda upplýsingum frá stjórn sjóðsins. Það var reynt að kalla þær fram með dómsmáli í fyrra en kröfu sjóðsins var hafnað,“ segir Lára.

Í janúar 2011 óskaði stjórn Vísindasjóðs eftir upplýsingum um svokallað aðstöðugjald sem KÍ greiddi sér af bankareikningi sjóðsins.

„Þegar í ljós kom að enginn samningur lá fyrir um aðstöðugjaldið vöknuðu fleiri spurningar. Við mættum mikilli tregðu af hálfu KÍ við að láta bókhaldið af hendi en fengum að lokum hluta gagnanna. Meðal þess sem kom í ljós var að tekjur sjóðsins frá ríkinu, rúmar átta milljónir króna á mánuði, voru jafnan færðar af bankareikningi sjóðsins og inn á reikning KÍ þar sem þær lágu jafnvel í nokkrar vikur. Vextir af þeim peningum hafa orðið eftir á reikningi KÍ,“ segja Þórey Hilmarsdóttir, stjórnarformaður Vísindasjóðsins, og Linda Rós Michaelsdóttir stjórnarmaður.

Vísindasjóðurinn hefur nú verið fluttur úr KÍ og er vistaður annars staðar. Að sögn Lindu Rósar og Þóreyjar var það gert til að tryggja sem best hagsmuni félaganna beggja.

„Ríkisendurskoðandi tjáði okkur að við bærum fjárhagslega ábyrgð á sjóðnum og að við yrðum að skoða hlutina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×