Innlent

Kvartar undan fjarveru forsætisráðherra

Höskuldur Kári Schram skrifar
Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar
Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, kvartaði undan fjarveru forsætisráðherra þegar þingfundur hófst á Alþingi í morgun. Helgi sagði að það væri erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að sýna framkvæmdavaldinu aðhald ef forsætisráðherra væri alltaf fjarverandi.

„þetta er þriðji óundirbúni fyrirspurnatíminn í röð þar sem ráðherrann er fjarverandi, það eru tíu dagar og stefnir í að það líði þrjár vikur á hábjargræðistímanum milli þess sem forsætisráðherra er hér til andsvara. Þegar það er hlutverk Alþingis að veita framkvæmdavaldinu aðhald þá er það nú býsna erfitt að gera ef að verkstjóri framkvæmdavaldsins, forsætisráðherra sjálfur er hér vikum saman ekki til svara fyrir þingmenn," sagði Helgi.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, sagði að ráðherrar ríkisstjórnarinnar væru sjálfstæðir í sínum störfum og þyrftu ekki á sama hátt og ráðherrar síðustu ríkisstjórnar að hafa verkstjóra til að segja sér fyrir verkum.

"Þannig að ráðherrar núverandi ríkisstjórnar eru nokkuð sjálfstæðir í eigin störfum og þó að forsætisráðherra sé upptekinn á fundum eða við störf annars staðar en í þinghúsinu þá starfar ríkisstjórnin ágætlega," sagði Ragnheiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×