Íslenski boltinn

Daníel Laxdal spilaði hverju einustu mínútu í sumar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Daníel Laxdal í leik með Stjörnunni
Daníel Laxdal í leik með Stjörnunni
 „Ég er ekkert að hata að tímabilið sé búið. Þetta er orðið gott,“ segir Daníel Laxdal, fyrirliði karlaliðs Stjörnunnar. Daníel var á leiðinni á sína síðustu æfingu á tímabilinu í gær þegar blaðamaður heyrði í honum hljóðið.

Fyrirliðinn hefur spilað 2.550 mínútur í deild og bikar í sumar. Afrekið verður seint slegið. Daníel spilaði hverja einustu mínútu í 22 deildarleikjum Stjörnunnar og sömuleiðis alla fimm leikina í bikarkeppninni. Þar fór Stjarnan fjórum sinnum í framlengingu í fimm leikjum. Við bætast því fjórum sinnum 30 mínútur, 120 mínútur alls, en Stjarnan fór alla leið í úrslitin þar sem liðið tapaði gegn Fram. Alltaf var Daníel inni á vellinum.

„Ég er ekki á neinu sérstöku mataræði,“ segir Daníel, spurður hvaðan orkan komi. Hann segist í raun gera það sem hann vilji hvað mat snerti og það virðist skila sér. Þá man hann eftir einu.

„Mamma má eiga það að hún er alltaf með hágæðamat daginn fyrir leik,“ segir Daníel. Yfirleitt sé gott kjöt á boðstólum fyrir bræðurna og það hljóti að hjálpa. Jóhann, yngri bróðir Daníels, leikur einnig með Stjörnunni.

Á fimm mánaða keppnistímabili getur ýmislegt komið upp á. Varnarmenn þurfa oft að taka út leikbönn en Daníel fékk aðeins þrjú gul spjöld í sumar. Þá var hann heppinn með meiðsli, sem hefur ekki alltaf verið tíðin á þeim bænum.

„Inni á milli er maður aumur en maður harkar það bara af sér,“ segir Daníel og bætir við að hann sé prúðmennið uppmálað á velli. Því myndu fáir mótmæla þó fullyrðing miðvarðarins hafi verið á léttu nótunum.

Daníel, sem er 27 ára, á ár eftir af samningi sínum við uppeldisfélagið. Bróðir hans Jóhann er hins vegar samningslaus og stefnir á atvinnumennsku.

„Ég veit ekki hvað ég myndi gera,“ segir Daníel um þann möguleika að bróðirinn fari af landi brott. Nánari bræður eru vandfundnir.

„Ætli ég myndi samt ekki fyrirgefa honum það,“ segir stóri bróðir á léttu nótunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×