Fótbolti

Gervinho blómstrar áfram í Afríkukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gervinho.
Gervinho. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gervinho, leikmaður Arsenal, heldur áfram að gera góða hluti með Fílabeinsströndinni í Afríkukeppninni í fótbolta í Suður-Afríku en hann var með mark og stoðsendingu í 3-0 sigri á Túnis í dag alveg eins og í 2-1 sigri á Tógó í fyrsta leik liðsins í keppninni.

Fílabeinsströndin er eina liðið í Afríkukeppninni sem er ennþá með fullt hús. Didier Drogba komst ekki í byrjunarlið Fílabeinsstrandarinnar í dag en kom inn á sem varamaður á 68. mínútu leiksins.

Gervinho, Yaya Toure og Didier Ya Konan skoruðu mörkin. Gervinho skoraði sitt mark á 21. mínútu eftir sendingu frá Lacina Traoré. Hin tvö mörkin komu á þremur síðustu mínútum leiksins en Gervinho lagði upp lokamarkið fyrir Didier Ya Konan.

Gervinho skoraði sigurmarkið á móti Tógó með marki undir lok leiksins en hann hefur ekki fundið sig með liði Arsenal að undanförnu en fer á kostum í keppninni í Suður-Afríku.

Fílabeinsströndin kemst í átta liða úrslitin í kvöld ef leikur Alsír og Tógó endar með jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×