Innlent

Ólafur Darri besti leikarinn á Karlovy Vary hátíðinni

Hrund Þórsdóttir skrifar
Kvikmyndin XL eftir Martein Þórsson var valin til þátttöku í aðalkeppni Karlovy Vary kvikmyndahátíðarinnar ásamt 13 öðrum myndum. Hátíðin er ein sú elsta í heiminum og er svokölluð A hátíð. Aðeins 14 kvikmyndahátíðir í keppnisflokki fá að bera þann titil og því þykir mikill heiður að krækja í verðlaun á hátíðinni.

Veitt eru verðlaun fyrir bestu mynd og leikstjórn, besta leikara og leikkonu og sérstök dómnefndarverðlaun auk heiðursverðlauna, sem Óskarsverðlaunahafinn Oliver Stone hlaut í ár. Íslendingar hafa áður sett mark sitt á hátíðina því árið 2007 hlaut kvikmyndin Mýrin, í leikstjórn Baltasar Kormáks, hin eftirsóttu aðalverðlaun hennar, Kristalshnöttinn.

XL fjallar um þingmanninn Leif Sigurðarson sem er neyddur í áfengismeðferð af vini sínum og félaga, forsætisráðherra Íslands. Áður en hann fer í meðferð ákveður Leifur að halda mikið partý sem fer alveg úr böndunum. Með aðalhlutverk fara Ólafur Darri og María Birta.

Ólafur Darri steig á svið nú skömmu fyrir fréttir og var vel fagnað þegar hann veitti viðtöku verðlaunum sínum fyrir besta leik í aðalhlutverki. Í meðfylgjandi frétt má sjá Ólaf þakka fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×