Innlent

Helmingur smitaðra þegar látið lífið

Svavar Hávarðsson skrifar
Ferðalöngum er ráðlagt að gæta að hreinlæti, einkum handþvotti.
Ferðalöngum er ráðlagt að gæta að hreinlæti, einkum handþvotti. Fréttablaðið/Hari

Ný gerð skæðrar bráðalungnabólgu hefur skotið upp kollinum og hefur þegar lagt 20 manns að velli, eða helming þeirra sem hafa greinst með sjúkdóminn síðan í mars 2012.

Veikin hefur að mestu verið bundin við Mið-Austurlönd, einkum Sádi-Arabíu. Sjúkdómurinn hefur hins vegar greinst á nokkrum stöðum utan Arabíuskaga, meðal annars Englandi og í Frakklandi.

Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er „um óvenjulegan og óvæntan atburð að ræða sem full ástæða er að fylgjast náið með,“ eins og segir í tilkynningu frá sóttvarnalækni. Þar kemur einnig fram að hvorki er til bóluefni né lyfjameðferð við sýkingunni.

Bráðalungnabólgan er af völdum kórónaveiru sem er skyld HABL (heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu) sem frá 2003 breiddist út í Kína, Hong Kong, Hanoí í Víetnam og síðar í öðrum löndum Asíu og víðar um heim. Þegar faraldurinn var liðinn hjá höfðu 8.445 manns sýkst og 812 látist.

Sýnt hefur verið fram á að þetta nýja afbrigði getur smitast á milli manna, en treglega þó. WHO og Sóttvarnastofnun ESB mæla hvorki með sérstökum viðbúnaði vegna ferðalaga til og frá Mið-Austurlöndum né heldur takmörkunum á ferðalögum og viðskiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×