Innlent

Ofurmenni hlaupa upp Esjuna

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fjórir hlauparar hlupu 10 sinnum upp og niður Esju á Esja Ultra í fyrra.
Fjórir hlauparar hlupu 10 sinnum upp og niður Esju á Esja Ultra í fyrra. Mynd/Esja Ultra

Esja Ultra ofurhlaupið verður haldið 22. júní næstkomandi. Boðið verður upp á fjórar vegalengdir þar sem fólk getur hlaupið  1, 2, 5 eða 10 hringi upp að Steini innan tímamarka.

 

Esja Ultra var haldið í fyrsta skipti í fyrra og gekk vonum framar að sögn Önnu Láru Steingrímsdóttur, eins skipuleggjenda hlaupsins. Þar fóru 55 manns tvær ferðir upp og niður, 21 kláruðu 5 ferðir og 4 einstaklingar hlupu 10 ferðir upp og niður Esjuna. 

 

Vilja kynna fólk fyrir hlaupaheiminum

Anna Lára er spennt fyrir hlaupinu „Þetta er náttúrlega algjört ofurhlaup sem tekur allan daginn. Þú þarft að vera í nokkuð góðu formi til að hlaupa tvo hringi eða fleiri svo við ákváðum að bæta við möguleikanum á að fara bara einn og skorum á alla að láta reyna á eina ferð.

 

Anna segir undirbúning þeirra sem fara fimm til tíu ferðir geta verið allt að ár. „Þetta er mikil áskorun til  alvöru hlaupara. Þú þarft að vera í mjög góðu formi  og hafa mikla reynslu í hlaupinu. Þetta er eitt erfiðasta hlaup sem hægt er að fara hérna heima þar sem helmingur vegalengdarinnar er upp á móti, en einn esjuhringur er 7 km vegalengd. Sá sem hleypur tíu hringi er þá að hlaupa 70 km. Þetta eru hálfgerð ofurmenni.“

 

Aðspurð um hvort veðrið geti ekki sett strik í reikninginn segist Anna hafa alla trú á að veðurguðirnir verði með þeim í liði. „Það var svo frábært veður í fyrra að við stólum bara á sól og blíðu.“

 

Nánari upplýsingar um skráningu má finna á heimasíðu Esja Ultra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×