Innlent

Ekki í myndinni að rífa Fernöndu á Grundartanga

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar luku störfum sínum í Fernöndu í gærkvöldi.
Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar luku störfum sínum í Fernöndu í gærkvöldi. Mynd/Daníel Rúnarsson
Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar lauk í gærkvöldi störfum sínum í skipinu Fernanda eftir að það var dregið að bryggju á Grundartanga á miðvikudaginn. Frá þessu er sagt á vef Skessuhorns. Slökkviliðsmenn fóru um borð í skipið og gengu úr skugga um að engir eldar loguðu um borð en einnig var olíuvarnargirðing lögð umhverfis skipið. Um klukkan átta í gærkvöldi fóru slökkviliðsmenn af svæðinu og tók lögreglan þá við vettvangi. Eigandi og tryggingarfélag skipsins munu taka ákvarðanir um næstu skref.

Sjór sem er í skipinu er mikið mengaður og fara þarf með hann eins og spilliefni. „Þetta var alger viðbjóður. Það er allt brunnið sem brunnið gat í skipinu, stafna á milli. Töluverður sjór er í vélarrúmi, á milliþilfari og í lestum. Þessu þarf að dæla í land og um borð í sérstaka hreinsibíla,“ segir Þráinn Ólafsson slökkviliðsstjóri í samtali við Skessuhorn.

Á næstu dögum verða ákvarðanir teknar um hvað gert verði við Fernöndu og hafa Faxaflóahafnir farið fram á að gerð verði áætlun um losun olíu úr skipinu. Skipið verður ekki lengi á Grundartanga og verður ekki rifið þar. „Það er ekki inn í myndinni að skipið verði rifið þar og enginn minnst á slíkt,“ segir Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna í samtali við Skessuhorn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×