Fótbolti

Dómarinn vildi stöðva leikinn vegna kynþáttaníðs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Altidore í leiknum í gær.
Altidore í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Jozy Altidore, leikmaður AZ Alkmaar í Hollandi, varð fyrir barðinu á kynþáttaníði áhorfenda í bikarleik gegn Den Bosch í gær.

Jóhann Berg Guðmundsson skoraði eitt og lagði upp annað í 5-0 sigri AZ í leiknum og þá var Aron Jóhannsson, sem samdi við AZ í gær, á meðal áhorfenda.

Dómari leiksins vildi stöðva leikinn í fyrri hálfleik en Altidore bað um að leiknum yrði haldið áfram.

„Það eru vonbrigði að svona lagað gerist enn nú til dags en hvað er hægt að gera? Maður vonar bara að þetta fólk bæti sig. Ég bið fyrir því," sagði Altidore en hann er bandarískur landsliðsmaður og lék áður með Hull í Englandi.

„Mér finnst að það sé skylda mín að bregðast ekki við svona löguðu og sýna að ég hlaut betra uppeldi en að bregðast við svona fáránlegri hegðun," bætti hann við.

Jóhann Berg lýsir upplifun sinni í viðtali við 433.is. „Hann tekur þetta smá inn á sig en hann verður bara að vera sterkur. Svona lagað á ekki að gerast. Það er árið 2013," sagði Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×