„Maður ber sterkar taugar til KR. Þeir vita hver ég er og hvað ég stend fyrir,“ segir markvörðurinn Stefán Logi Magnússon.
Stefán Logi er staddur á Íslandi í fríi. Hann nýtti tækifærið og æfði með sínum gömlu félögum í KR í gær. Hann spilaði með KR áður en hann hélt utan í atvinnumennsku sumarið 2009.
„Það var gaman að taka markmannsæfingu með Gumma Hreiðars og hitta strákana,“ segir Stefán Logi.
Samingur markvarðarins við Lilleström rennur út í desember en hann var í láni hjá Ull/Kisa á síðustu leiktíð. Stefán Logi segir óvíst hvert framhaldið verði.
Hann sé hér á landi fyrst og fremst í fríi og ekki megi lesa of mikið í að hann hafi æft með íslenskum liðum. Hann hafi til að mynda einnig æft með Stjörnunni þar sem hann fái ævinlega góðar móttökur.
Stefán Logi æfði með KR-ingum
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
