Fótbolti

Ekki minn síðasti samningur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári skipti um félag í Brugge í Belgíu og er nú kominn til Club eftir að hafa verið hjá Cercle í nokkra mánuði. Hér er hann með Arnari Grétarssyni.
Eiður Smári skipti um félag í Brugge í Belgíu og er nú kominn til Club eftir að hafa verið hjá Cercle í nokkra mánuði. Hér er hann með Arnari Grétarssyni. Nordic Photos / AFP
Eiður Smári Guðjohnsen segir að hann hafi ekki þurft að kyngja stoltinu þegar hann gekk til liðs við Cercle Brugge, botnlið belgísku úrvalsdeildarinnar í haust. Þvert á móti var hann ánægður yfir að komast í kunnuglegt umhverfi þar sem hann fengi að spila aftur reglulega eftir erfið meiðsli.

Þetta segir hann í samtali við Fréttablaðið. Hann er nú kominn til „stóra bróður" í Brugge en í síðasta mánuði ákvað Club Brugge að kaupa Eið Smára frá Cercle fyrir um 85 milljónir króna.

„Þetta var nokkuð eðlileg þróun á mínum málum þegar ég ákvað að fara til Cercle á sínum tíma," segir Eiður Smári. „Ég var orðinn 34 ára gamall og nýbúinn að missa út tímabil vegna fótbrots. Ég þurfti að spila reglulega og var Belgía hinn fínasti kostur fyrir mig. Ég þekki vel til hér og tala tungumálið," segir hann en Eiður Smári bjó í Belgíu sem barn er faðir hans, Arnór, lék sem atvinnumaður hjá Lokeren og Anderlecht.

Síðan Eiður Smári fór frá Barcelona árið 2009 hefur hann komið víða við og ekki staldrað lengi við á hverjum stað. Hann var síðast hjá AEK í Grikklandi en fótbrotnaði í leik með liðinu. En nú segist hann kominn á stað þar sem hann ætlar að vera til loka næsta tímabils – að minnsta kosti.

„Ég hefði ekki skipt yfir til Club nema til að gera langtímasamning. Þetta hefur verið brölt hjá mér fram og til baka og því vildi ég festa mig í sessi og hafa framtíðina í nokkuð föstum skorðum. Nú get ég einbeitt mér að því að spila fótbolta með Club. Það var þó ekki ætlunin að vera lengi í Belgíu, í hreinskilni sagt. En svona vilja hlutirnir þróast," segir Eiður Smári. Hann neitar því þó að þetta verði hans síðasti samningur á löngum atvinnumannsferli.

„Alls ekki. Ekki miðað við hvernig mér líður núna. Það er eitthvað sem gerðist þegar ég meiddist illa, í annað skiptið á mínum ferli. Ég hugsaði með mér að ég ætlaði ekki að láta þetta enda svona. Svo þegar maður kemst aftur á lappir, byrjar að skora mörk og njóta þess að spila fótbolta á ný áttar maður sig á því hversu ferilinn er stuttur í raun og veru. Ég veit að það er ekki langt eftir en á meðan ég nýt þess að spila og hef heilsu til ætla ég að halda áfram eins lengi og ég get."

Arnar Grétarsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá Club Brugge en hann var í sömu stöðu hjá AEK þegar að Eiður Smári var þar. En hann segir það aðeins tilviljun eina. „Arnar er eins og ég nýkominn til Club og í raun var félagið búið að gera upp hug sinn varðandi mig áður en hann kom. Auðvitað ræddi ég um þetta við Arnar en þegar Club frétti að það væri mögulegt að fá mig fór allt á fullt," segir Eiður Smári.

Næsta verkefni hans verður leikur með íslenska landsliðinu gegn Rússlandi á Spáni á miðvikudag. Hann segist ánægður með að vera kominn aftur í landsliðið en hann spilaði síðast með því gegn Færeyjum í ágúst.

„Ég var í raun ekkert búinn að velta mér upp úr því að hafa ekki verið með í síðustu leikjum. Mér fannst þó mjög gaman að vera með liðinu í sumar, þó svo að það hafi verið leikur gegn Færeyjum. Ég vissi svo að ég þyrfti að komast í mitt gamla form og þá myndi restin koma," segir Eiður Smári.

„Ég hef alltaf sagt að ég væri jákvæður fyrir landsliðinu, þrátt fyrir að efasemdir um það hafi komið reglulega upp í gegnum tíðina. Ég hef alltaf haft gaman að því að spila með landsliðinu og ávallt viljað leggja allt á mig fyrir það. Framhaldið verður svo bara að koma í ljós og hversu raunhæft það er fyrir mig að spila með landsliðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×