Fótbolti

Aron orðinn leikmaður AZ

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Myndir / Heimasíða AZ
Aron Jóhannsson skrifaði í dag undir þriggja og hálfs árs samning við hollenska úrvalsdeildarfélagið AZ Alkmaar en hann var keyptur til félagsins frá AGF í Danmörku.

Þetta var tilkynnt á heimasíðu AZ í dag en þar kemur fram að Aron mun klæðast treyju númer 20 hjá félaginu.

Samkvæmt dönskum fjölmiðlum greiddi AZ þrettán milljónir danskra króna fyrir kappann, um 300 milljónir íslenskra króna. Talið er að Fjölnir, lið Arons hér á landi, fái á fimmta tug milljóna vegna sölunnar.

Aron er 22 ára gamall og sló í gegn þegar hann skoraði fjögur mörk í leik með AGF, þar af þrennu á tæpum fjórum mínútum. Fernan kom á sextán mínútum en bæði er met í dönsku úrvalsdeildinni.

Hann skoraði alls 21 mark í 48 leikjum með AGF en hann kom til félagsins frá Fjölni árið 2010.

„Ég er mjög ánægður með að þetta skuli vera frágengið og ég get ekki beðið eftir að hitta alla. Ég hef margt gott um AZ en margir Íslendingar hafa látið vel af félaginu,“ sagði Aron í viðtali á heimasíðu AZ.

Aron er með tvöfaldan ríkisborgararétt og kemur enn til greina í bæði íslenska og bandaríska A-landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×