Fótbolti

Aron: Áhugi frá Spáni og Englandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Heimasíða AZ
Aron Jóhannsson segist vera hæstánægður með að hann skuli vera orðinn leikmaður AZ Alkmaar í Hollandi.

Aron ræddi við Hjört Hjartarson á Boltanum á X-inu 977 í morgun og sagði að þetta hafi staðið til í nokkurn tíma.

„Ég hef vitað þetta í nokkra mánuði. Þeir hafa mætt á nokkuð marga leiki og fylgst með mér. Þetta tók sinn tíma en ég er virkilega ánægður með að þetta sé gengið í gegn," sagði Aron.

„Þetta reyndist vera aðeins meira vesen en ég átti von á. Það voru ekki allir hér ánægðir með að ég væri að fara en það eru greinilega allir falir fyrir rétt verð."

Hann segir að lið í efstu deildum á Spáni og Englandi hafi sýnt sér áhuga. „Mér fannst Holland vera rétta skrefið fyrir mig og AZ fullkomið félag til að hjálpa mér til að komast lengra. Það þýðir ekkert að taka of stór skref til að byrja með."

Aron, sem er fæddur í Bandaríkjunum, getur enn gefið kost á sér í íslenska og bandaríska landsliðið. Hann vildi ekki segja neitt um framtíð sína í þeim efnum.

„Það á eftir að koma í ljós og mun gerast fyrir næstu leiki í undankeppni HM."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×