Innlent

Var líklega undir áhrifum fíkniefna

Hjörtur Hjartarson skrifar

Líklegt þykir að maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um kynferðisbrot gegn 10 ára stúlku, hafi verið undir áhrifum fíkniefna þegar meint brot átti sér stað. Hann hefur ekki komið við sögu lögreglu áður vegna ofbeldisbrota. Við skýrslutöku bar sakborningurinn við minnisleysi.

Sakborningurinn neyddi stúlkuna, sem var á heimleið úr skóla sínum í vesturbæ Reykjavíkur, í bíl sinn um miðjan dag á mánudaginn. Samkvæmt heimildum fréttastofu ók hann með stúlkuna annaðhvort í Heiðmörk eða Mosfellsdal. Þar er hann sakaður um að hafa brotið gegn henni kynferðislega.

Þrátt fyrir erfiða lífreynslu tókst stúlkunni að gefa greinargóða lýsingu á bifreiðinni og manninum sem leiddi til þess að hann var handtekinn á heimili sínu, síðar sama dag. Við húsleit lagði lögreglan hald á tölvur og tölvugögn sem eru til rannsóknar. Maðurinn sem er á fertugsaldri hefur komið við sögu lögreglu áður en en aldrei vegna ofbeldisbrota.

Grunur leikur á að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna þegar meint brot átti sér stað en sýni sem tekin voru úr manninum eiga enn eftir að staðfesta það. Við skýrslutöku bar maðurinn við minnisleysi. Frekari yfirheyrslur yfir manninum verða ekki fyrr en dómsviðtal við stúlkuna hefur farið fram. Áætlað er að það verði morgun.

Sakborningurinn hefur enn ekki gefið upp hvort hann hyggist una gæsluvarðhaldsúrskurðinum eða kæra hann. Hann hefur frest til morguns til að gera upp hug sinn í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×