Innlent

Lífríki í Lagarfljóti rýrnað

Jóhannes Stefánsson skrifar
Rýrnun á lífríki í Lagarfljóti vegna Kárahnjúkavirkjunar er sú sem við var búist og í meginatriðum í samræmi við mat sem var gert á umhverfisáhrifum vegna virkjunarinnar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Veiðimálastofnunar.

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Veiðimálastofnun, segir að lífríkið í fljótinu hafi breyst eftir að vatni úr Jökulsá á Dal var veitt í Lagarfljót. „Það sem að niðurstöðurnar eru að sýna er að það hefur orðið hnignun í fiskstofnum Lagarfljóts. Þeir hafa minnkað. Vaxtarhraði hefur minnkað og fæðuval þeirra hefur breyst," segir hann.

Fiskistofnar í fljótinu hafi því rýrnað nokkuð. Guðni bendir þó á ekki sé langt um liðið frá því að hafið var að veita vatni í Lagarfljótið og því liggi endanleg áhrif ekki fyrir. „Endanlegt ástand er ekki komið fram og það þyrfti fleiri ár til þess að skoða það."

Þá komi niðurstöðurnar ekki sérstaklega á óvart. „Þegar að menn voru að reyna að gera sér grein fyrir áhrifum Kárahnjúkavirkjunar þá lá þetta nokkurnveginn fyrir," segir Guðni Guðbergsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×