Innlent

Ragnheiður segir ríkisstjórnina ekki fara að vilja Alþingis

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir ríkisstjórnina
Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir ríkisstjórnina Mynd/Anton Brink
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðiflokksins, gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að fara ekki að vilja Alþingis varðandi aðildarumsókn Íslands í Evrópusambandið.

Þetta kom fram í viðtali Sigurjóns M. Egilssonar við Ragnheiði í Sprengjusandi í morgun.

„Þetta mál er að verða frekar vandræðalegt. Í mínum huga er það alveg ljóst að þegar Alþingi ályktar í þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórninni að gera eitthvað, einstökum ráðherra eða ríkisstjórninni í heild sinni, þá hefur löggjafarvaldið falið framkvæmdarvaldinu að vinna að einhverju og framkvæmdarvaldið situr raunverulega í umboði löggjafarvaldsins,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður segir enga ríkisstjórn geta ákveðið að hún þurfi ekki að fara að vilja Alþingis.

„Þingsályktunartillagan er klár, samþykkt og afgreidd af löggjafarsamkomunni. Ef það er einhver sem getur tekið þessa þingsályktunartillögu tilbaka þá er það Alþingi. Ef ríkisstjórnin ætlar sér ekki að fara eftir tillögunni þá tel ég að Alþingi geti einfaldlega ákveðið að koma með þingsályktunartillögu og óskað eftir að hún gangi til atkvæða,“ segir Ragnheiður.

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, og Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðarMynd/úr safni
Ásamt Ragnheiði voru Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata og Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar í viðtali.

Birgittu leist vel á hugmynd Ragnheiðar. „Ég vona að stjórnarþingmaður leggi þetta fram og ég mun styðja það. Það er búið að skapa vafa um gildi þingsályktana“, segir Birgitta.

Birgitta segir að ríkisstjórnin kippi undirstöðunum undan þingræðinu með því að fara ekki að vilja Alþingis í málinu og boða til kosninga um Evrópusambandið.

„Þingmenn á síðasta kjörtímabili og nú nýir þingmenn vilja að þingið endurheimti þingræðið og hafa unnið þverpólitískt að málefnum. Það er eitt það albesta sem kom upp úr þessu mikla hruni, að endurheimta þingræðið, og nú er verið að kippa undirstöðunum undan því,“ segir Birgitta. 

Róbert vill að tekin verði ákvörðun í málinu og að snyrtilegast væri að ljúka viðræðunum og halda áfram með ferlið.

„Ef þú tekur ekki ákvörðun þegar þú átt valkosti þá lendir þú í stöðu þar sem þú átt ekki lengur neina valkosti og ferð kannski einhverja leið sem þú ert ekki endilega sáttur við. Við verðum að bera ábyrgð á, fylgja og virða þau ferli sem við ákveðum okkur, “ segir Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×