Innlent

Vændi og jafnvel mansal var stundað heima hjá henni: „Það er verið að misnota traust“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum handtók fyrir rúmri viku íslenskan karlmann og lettneska konu sem grunuð eru um að hafa rekið umfangsmikla vændisþjónustu hér á landi. Talið er að nokkrir tugir manna hafi keypt vændi hjá konunni, sem auglýsti nuddþjónustu á netinu, og að karlmaðurinn hafi haft milligöngu um vændið eða tekjur af því. Mansal og vændiskaup eru ólögleg hér á landi.

María Hjálmtýsdóttir hefur leigt út bakhús sitt til ferðamanna og fékk hjálp gamals kunningja við að útvega leigjendur. „Svo bara var hringt í mig og þá fékk ég að vita að þetta húsnæði væri mikilvægur hlekkur í vændisrannsókn og jafnvel mansals,“ segir María.

Kunninginn er maðurinn sem nú er grunaður um mansal og talið er að konurnar hafi stundað vændi í íbúð Maríu. Tvær erlendar konur á hans vegum leigðu hjá Maríu í um þrjár vikur í vor en þegar óskað var eftir að þær fengju íbúðina aftur í sumar neitaði María því henni fannst hegðun þeirra undarleg. „Yfirleitt þegar túristar koma eru þeir nær ekkert í húsnæðinu sem þeir leigja nema rétt til að gista og græja sig á morgnana, svo er fólk bara að skoða landið. Svo það er skrýtið að fá túrista sem eru bara heima á sloppnum allan daginn,“ segir hún.

María undraðist tíðar gestakomur til kvennanna. „Þær virtust eiga slatta af vinum og ég áttaði mig hægt og rólega á að þeir væru allir karlkyns.“

Ertu reið út í þetta fólk?

„Já, ég er það. Þetta er náttúrulega rosaleg innrás, ég er með börnin mín hérna heima og þetta er einhvern veginn komið inn fyrir þröskuldinn hjá manni. Það er verið að misnota traust.“

María segir ótrúlega tilhugsun að starfsemi sem þessi þrífist hérlendis og segir marga eflaust sjá fyrir sér að hún fari þá aðeins fram í undirheimunum. „En svo er þetta kannski bara heima hjá þér,“ segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×