Lífið

Bleikar Valskonur styrkja Slaufuna

Sara McMahon skrifar
Körfuknattleikskonur Vals standa fyrir Hreyfingardegi í Valsheimilinu til styrktar Bleiku slaufunni.
Körfuknattleikskonur Vals standa fyrir Hreyfingardegi í Valsheimilinu til styrktar Bleiku slaufunni. Fréttablaðið/vilhelm
„Í fyrra spiluðum við í bleikum búningum. Í ár langaði okkur að styðja enn frekar við málefnið enda snertir þetta okkur allar,“ segir Ragna Margrét Brynjarsdóttir, miðherji í körfuboltaliði Vals. Ragna Margrét og liðsfélagar hennar standa fyrir Hreyfingardegi í Valsheimilinu til styrktar átakinu Bleiku slaufunni. Hreyfingardagurinn fer fram á milli klukkan 15 og 17 í dag.

Að sögn Rögnu Margrétar verður ýmsum stöðvum komið upp í Valsheimilinu þar sem konum gefst færi á að prófa ólíkar íþróttir.

„Hóparnir flakka á milli stöðva og eyða tíu mínútum á hverri þeirra. Við verðum meðal annars með jógakennara, danskennara og blakþjálfara. Svo munum við að sjálfsögðu sjá um körfuboltakennsluna,“ segir Ragna Margrét. Hún og liðsfélagar hennar munu klæðast bleiku í tilefni dagsins.

Aðspurð segir hún viðburðinn ætlaðan konum á öllum aldri og eru hópar velkomnir. Þátttökugjald er þúsund krónur og rennur það fé beint til Krabbameinsfélagsins. Húsið verður opnað klukkan 14.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.