Innlent

Skora á yfirvöld að bregðast við ófremdarástandinu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands og stjórn félagsins sendu frá sér ályktanir í lok aðalfundar í dag.
Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands og stjórn félagsins sendu frá sér ályktanir í lok aðalfundar í dag.
Læknar lýsa yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp 2014, lýsa skýlausri ábyrgð á vanda heilbrigðiskerfisins á hendur stjórnvöldum og skora á yfirvöld að bregðast strax við því ófremdarástandi sem upp er komið í heilbrigðiskerfinu.

Þetta kom fram á aðalfundi Læknafélags Íslands 2013 sem haldinn var í dag og í gær. 

Í fréttatilkynningu frá stjórn Læknafélagsins kemur fram að fundinum þyki ljóst að við gerð fjárlagafrumvarps hafi eindregin ósk þjóðarinnar um að setja heilbrigðismálin í forgang verið hunsuð.

Nauðsynlegt sé að móta raunhæfa stefnu um hvar íslenska heilbrigðiskerfið eigi að standa í samanburði við aðrar þjóðir og tryggja fjármagn í samræmi við þá stefnu. Slíka stefnu verði að móta fyrir lok þessa árs og hrinda í framkvæmd á næstu þremur árum. Læknafélag Íslands lýsir sig reiðubúið að koma að þeirri vinnu. 

Í framhaldi þurfi svo í samvinnu við lækna, aðrar heilbrigðisstéttir og hagsmunahópa að forgangsraða þeim lausnum sem valdar eru og setja skýr tímamörk hvenær eigi að hrinda þeim í framkvæmd innan áranna þriggja.

Aðalfundurinn sendir frá sér ályktanir um að nauðsynlegt sé að læknar verði áfram í sjúkra- og björgunarflugi með þyrlum Landhelgisgæslunnar. Jafnframt að heilbrigðisyfirvöld geri að opinberri stefnu sinni og hrindi í framkvæmd að allir íbúar landsins sem þess óska séu skráðir hjá heimilislækni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×