Fótbolti

Ögmundur nýliði í landsliðshópi Lagerbäck

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Ögmundur Kristinsson, markvörður Fram, er eini nýliðinn í landsliðshópi Lars Lagerbäck. Ísland mætir Slóveníu í undankeppni HM 2014 á föstudaginn næstkomandi en leikurinn fer fram í Ljubljana.

Fylgst var með fundinum hér á Vísi:

13.40: Lars svarar fleiri spurningum, til dæmis um slóvenska liðið, en við látum þetta gott heita hér á Vísi. Ítarlegra viðtal við Lars kemur í Fréttablaðið á morgun.

13.38: Lars vill ekkert gefa upp um hverjir munu spila í fremstu víglínu. „Gylfi og Eiður geta báðir spilað frammi. Kolbeinn og Alfreð geta spilað saman og það getur vel verið að bara annar þeirra byrji. Við skulum sjá til."

13.36: Gylfi hefur verið að festa sig í sessi á vinstri kantinum hjá Tottenham. Hann spilaði í þeirri stöðu gegn Rússum. „Hann hefur verið að standa sig vel í þessu hlutverki og það er fyrst og fremst gott fyrir hann að hann sé að spila reglulega. Það er allra mikilvægast."

„En ég get vel séð fyrir mér að hann muni leysa þetta hlutverk hjá landsliðinu í framtíðinni. Bæði á miðju og sókn erum við með góða leikmenn og ríkir mikil samkeppni um stöður."

13.33: Eiður spilaði á hægri kantinum gegn Rússlandi og Lars útilokar ekki að nota hann aftur þar. „Mér fannst hann standa sig vel varnarlega eins og allt liðið. Þetta var erfiður leikur fyrir alla sóknarmenn en ég ber mikla virðingu fyrir Eiði og hvernig hann nálgaðist leikinn."

„Við ræddum við lengi saman, bæði fyrir og eftir leik. Hann er velkominn í liðið og svo sjáum við til hvort hann byrji eða ekki."

13.28: Lars er spurður nánar út í stöðu Björn Bergmanns. „Ég vil ekki setja of mikla pressu á hann ef honum finnst hann ekki vera 100 prósent klár. En hann er ávallt velkominn í landsliðið."

„Ég er ekki pirraður út í hann. Ég held að honum finnist hann ekki vera tilbúinn að vera fyrir landsliðið, sem kom mér frekar á óvart en eitthvað annað. Mér finnst það yfirleitt hjálpa ungum leikmönnum að spila með landsliðum sínum."

„En þetta er hans ákvörðun og ég virði hana. Ég trúi ekki á að það eigi að tala leikmenn til að spila með landsliðinu. Það er heldur ekkert að þeim sóknarmönnum sem við erum með."

13.25: Sölvi hefur verið að æfa mikið á undirbúningstímabilinu og spilaði nokkra æfingaleiki. Sölvi hefur lítið sem ekkert spilað en er í 100% formi.

Slóvenía er með sterkt lið og því tel ég að Sölvi henti vel fyrir þá. Ég veit ekki hvort hann byrjar en hann hefur reynslu sem getur komið sér vel fyrir okkur.

Hallgrímur er kominn til baka eftir langvarandi meiðsli. Hann er byrjaður að spila og því völdum við hann. Hólmar er líka að spila hjá Bochum og ég tel mikilvægt að hann sé eins mikið með liðinu og mögulegt. Hann er efni í framtíðarlandsliðsmann og ég tel að hann eigi að vera í liðinu.

Indriði komst ekki í liðið núna en það er mikil samkeppni hjá miðvörðunum.

Ég er sannfærður um að þessir þrír bakverðir eru þeir bestu sem við eigum, fyrir utan Grétar. Ari Freyr hefur staðið sig vel í þessari stöðu og ég er ánægður með hann.

Þetta eru þeir bestu miðjumenn sem við eigum. Flestir eru að byrja hjá sínum félögum sem er gott. Helgi og Ólafur eru á bekknum oft en ég vildi hafa þá með.

13.23: Guðmundur Hreiðarsson fer yfir stöðuna hjá markvörðunum. Ögmundur er verðlaunaður fyrir góða frammistöðu á tímabilinu.

13.22: Aron Jó er enn að koma sér í gang hjá AZ. Ég hringdi í Björn Bergmann en það var ekki svarað. Hann hringdi svo ekki til baka. Rúnar Már hefur verið á bekknum hjá Zwolle í Hollandi og er því ekki byrjaður að spila almennilega. Vonandi koma þessir ungu menn inn í liðið síðar.

13.20: Þurfum að passa betur upp á spjöldin. Þrír leikmenn í banni í þessum leik. Grétar Rafn er enn meiddur.

13.19: Varnarleikurinn gegn Rússlandi var það besta sem við höfum sýnt á því sviði. Samvinnan mjög góð. En samvinnan er að við erum hikandi þegar við töpum boltanum. Rússar skoruðu bæði mörk sín eftir að hafa unnið boltann af okkur.

Þetta er Barcelona-heilkennið. Við þurfum að vera kaldari á boltanum og passa betur upp á hann. Við þurfum að heilaþvo leikmennina og sjá til þess að við töpum ekki boltanum á slæmum stað.

Leikmenn eru stundum of metnaðargjarnir. Það er gott að hafa metnað en stundum getur það verið of mikið. En við getum lært af þessu og byggt á þessari reynslu.

13.17: Mikilvægur leikur í Slóveníu, segir Lars. Við eigum enn séns þrátt fyrir tap. Þetta er jafn riðill og það er allt mögulegt eftir. Við eigum þrjá heimaleiki og þrjá útileiki eftir og nú fara stigin að vera virkilega dýrmætt.

13.17: Ekkert Powerpoint eða vídjó í dag hjá Lars. Vonbrigði. En Lars tekur til máls.

13.16: Grískir dómarar munu dæma þennan leik.

13.15: Allir komnir og búið að tilkynna hópinn. Ögmundur Kristinsson, markvörður Fram, er í hópnum.

Markverðir:

Gunnleifur Gunnleifsson, Breiðabliki

Hannes Þór Halldórsson, KR

Ögmundur Kristinsson, Fram

Varnarmenn:

Birkir Már Sævarsson, Brann

Ragnar Sigurðsson, FCK

Sölvi Geir Ottesen, FCK

Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Hönefoss

Ari Freyr Skúlason, Sundsvall

Hallgrímur Jónasson, SönderjyskE

Hólmar Örn Eyjólfsson, Bochum

Miðjumenn:

Emil Hallfreðsson, Hellas Verona

Aron Einar Gunnarsson, Cardiff

Helgi Valur Daníelsson, AIK

Jóhann Berg Guðmundsson, AZ

Birkir Bjarnason, Pescara

Ólafur Ingi Skúlason, Zulte Waregem

Gylfi Þór Sigurðsson, Tottenham

Sóknarmenn:

Eiður Smári Guðjohnsen, Club Brugge

Kolbeinn Sigþórsson, Ajax

Alfreð Finnbogason, Heerenveen

13.10: Enn bólar ekkert á Lars og föruneyti hans. Allir fjölmiðlar komnir og hér eru menn bara spenntir.

13.03: Fjölmiðlamenn eru að týnast inn í salinn en enginn er kominn frá KSÍ. Í boði eru kaffi, kleinur, sódavatn, gos og Kit Kat - fyrir áhugasama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×