Fótbolti

Fanndís: Ég held að þetta verði skemmtilegur leikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/ÓskarÓ
Fanndís Friðriksdóttir skemmti sér á öðrum á blaðamannafundi með íslensku pressunni í Vaxjö í gær. Hún var ekkert að láta pirra sig að hlutirnar hafi ekki alveg gengið upp hjá henni í mótinu til þessa. Framundan er úrslitaleikur við Holland í dag en sigur tryggir íslenska liðinu sæti í átta liða úrslitum EM í Svíþjóð.

„Ég er ljómandi hress og orðin mjög spennt fyrir morgundeginum. Við ætlum að vinna leikinn það kemur ekkert annað til greina," segir Fanndís Friðriksdóttir.

„Við ætlum að sækja hratt á þær. Þær eru búnar að spila báða leikina sína á sömu leikmönnunum og eru örugglega orðnar þreyttar. Við ættum að geta nýtt okkur það," segir Fanndís.

Hún hitaði upp nær allan seinni hálfleikinn á móti Þýskalandi en fékk ekki að kom inn á vegna óvæntra meiðsla miðjumanna íslenska liðsins.

„Katrín Ómars tók af mér skiptinguna. Vonandi fæ ég að spila eitthvað á morgun og það verður bara spennandi. Ég fékk lítið boltann á móti Noregi og loksins þegar við fórum að fara ofar á völlinn í þeim leik og komast inn í leikinn þá var mér skipt útaf," segir Fanndís en hvað með leikinn á móti Hollandi í kvöld.

„Það eru allar rólegar og yfirvegaðar en jafnframt staðráðnar í að vinna. Það er mikil tilhlökkun. Þetta er ekkert stress því þetta er bara fótbolti. Þetta er ekki flókið.Við höfum engu að tapa og allt að vinna. Ég held að þetta verði skemmtilegur leikur því bæði lið munu sækja því bæði liðin þurfa að vinna," segir Fanndís.

Hollenska liðið er nú eina liðið í keppninni sem hefur ekki náð að skora.

„Þær eru með flinka leikmenn sem geta gert ýmislegt en við erum líka með gríðarlega sterka vörn sem getur tekið á móti þeim eins og öllum öðrum," segir Fanndís.

„Ég yrði gríðarlega sátt að fá að vera í byrjunarliðinu og fá tækifæri til að hefna fyrir það fá ekki að fara inn á í síðasta leik og vera tekin útaf í leiknum á undan," segir Fanndís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×