Fótbolti

"Synd fyrir Ísland að Aron valdi Bandaríkin“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kolbeinn í leik með Ajax.
Kolbeinn í leik með Ajax. Nordicphotos/AFP
Kolbeinn Sigþórsson segir það vonbrigði að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu geti ekki nýtt krafta Arons Jóhannssonar í framtíðinni.

Í viðtali við Goal.com segist Kolbeinn ekki hafa rætt um ákvörðunina við Aron. Hann bendir hins vegar á að hans sé valið.

„Það er synd fyrir Ísland því fámennið gerir það að verkum að við þurfum á öllum okkar leikmönnum að halda. Hann spilaði fyrir yngri landslið Íslands þannig að þetta er nokkuð ótrúlegt,“ segir Kolbeinn.

Ajax, lið Kolbeins, mætir AZ Alkmaar, liði Arons, um helgina. Kolbeinn lék einmitt með AZ áður en hann var keyptur til Ajax sumarið 2011. Aðspurður hvort það sé Kolbeini sjálfum að kenna að Aron hafi valið Bandaríkin fram yfir Ísland segir Kolbeinn:

„Kannski er hann smeykur við að keppa um sæti í liðinu við mig,“ grínast Kolbeinn. „Nei, í fullri alvöru þá hef ég ekki hugmynd hvers vegna hann valdi Bandaríkin. Kannski telur hann sig eiga betri möguleika í framtíðinni með þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×