Innlent

Formennirnir kynna stjórnarsáttmálann

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynna stjórnarsáttmálann.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynna stjórnarsáttmálann. Mynd/ Egill.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins héldu stutt erindi fyrir fréttamenn á fundi í Héraðsskólanum á Laugarvatni áður en þeir undirrituðu stjórnarsáttmála ríkisstjórnar flokkanna beggja. Bjart var yfir mönnum, enda veðrið með besta móti.

Sigmundur Davíð fór yfir sáttmálann í stórum dráttum þar sem hann lagði áherslu á landbúnað, heilbrigðismál, umhverfismál og svo stóra málið; skuldavanda heimilana.

„Ég er ákaflega sáttur við þá niðurstöðu sem við náðum varðandi stöðu heimilana. Það var stóra málið í síðustu kosningum," sagði Sigmundur. „Þótt stjórnarsáttmáli sé yfirleitt almennt orðað skjal og ekki margar blaðsíður, sáum við ástæðu til að hafa ítarlegan kafla um skuldamálin. Við munum strax hefja vinnu við þetta, en það mun taka tíma að vinna frumvörp og klára hluti í tengslum við þau."

Bjarni tók undir með Sigmundi og sagðist afar ánægður með þá lendingu sem formennirnir náðu á fundum sínum. „Ég er mjög ánægður með að flokkarnir tveir hafi náð saman, sem væri eðlilegt framhald í kjölfar kosninganna," sagði hann. „Við höfum sett réttu forgangsmálin á dagskrá, en við munum heldur ekki færast of mikið í fang. Það eru fjölmörg tækifæri í landinu, en ef ekki er rétta andrúmsloftið í samfélaginu munu okkur ekki auðnast að færast fram og við munum tapa samkeppnisstöðu landsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×