Innlent

Staðið verði við uppbyggingu

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir mikilvægt að standa við uppbyggingaráform um ný hjúkrunarrými við Sléttuveg í Reykjavík.

Þá muni sjúkrahótel, sem er hluti af áformum um byggingu nýs Landspítala, einnig létta á þörfinni á hjúkrunarrýmum. Fréttablaðið greindi frá því í gær að eldra fólk biði vikum saman á Landspítalanum (LSH) eftir hjúkrunarrýmum. Björn Zoëga, forstjóri LSH, sagði í pistli á heimasíðu spítalans að skortur á hjúkrunarrýmum væri aðalástæða þess að meðallengd sjúkrahúslegu hefði aukist milli ára.

Dagur tekur undir þær áhyggjur. Alvarlegt sé að fólk sem hæft sé til útskriftar festist á sjúkrahúsinu.

Tvennt skipti sérstaklega miklu máli til að létta á þessum vanda. „Það er í fyrsta lagi að það verði byggð ný hjúkrunarrými í Reykjavík á grundvelli þeirrar viljayfirlýsingar sem gerð var fyrr á þessu ári um 88 ný rými við Sléttuveg.

Hins vegar er í fyrsta áfanga uppbyggingar nýs Landspítala gert ráð fyrir sjúkrahóteli, sem er í raun býsna langt komið í hönnun. Þetta er alveg skýrt dæmi um það hvernig sú uppbygging getur lækkað rekstrarkostnað spítalans, þegar til lengdar lætur.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×